Sér fram á hóflegan vöxt í ferðaþjónustu á næstu árum

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF. Eggert Jóhannesson

Á árunum fyrir faraldurinn mátti sjá skýr merki um að hagræðing ætti sér stað í ferðaþjónustu með sameiningu fyrirtækja. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að mikil tækifæri séu fólgin í skynsamlegri hagræðingu í greininni. Slík hagræðing verði þó ávallt að vera á forsendum markaðarins.

„Hún verður að eiga sér stað á skynsamlegan máta og án þvingana. Ég tel líka vera mikil tækifæri fólgin í því að nýta landið betur og búa til fleiri segla víðar um land. Þannig að ferðamenn dreifist betur yfir landið. Vestfirðir og önnur svæði fjarri höfuðborginni eiga mikið inni í því samhengi. Það liggja líka tækifæri í geislabaugsáhrifum ferðaþjónustu á aðrar útflutningsgreinar því það hefur sýnt sig að ferðamenn sem sækja land heim vilja t.d. gjarnan halda áfram að kaupa vörur þaðan eftir að heim er komið. Það á líka við um Ísland,“ segir Jóhannes.

Vaxa og dafna

Hann er sannfærður um að íslensk ferðaþjónusta haldi áfram að vaxa og dafna á næstu árum.

„Greinin mun vaxa, en þó ekki mjög hratt. Þegar fólk heyrir að vöxtur sé fram undan í ferðaþjónustunni þá sér það fyrir sér sprengjuvöxtinn sem átti sér stað á síðasta áratug. Svo mun ekki verða, en hóflegur vöxtur í kringum 1-5% á ári er ansi líklegur. Ég tel því líklegt að ef við gefum okkur það að við fáum ekki sambærilegt áfall og covid þá verði ferðaþjónustan á mjög góðum stað eftir 10 ár. Við megum ekki gleyma því að ferðaþjónustan er mjög stutt á veg komin og það mun mögulega taka 20 ár að þróa hana þannig að hún verði á þeim stað sem við viljum sjá hana. Og það er því stóra verkefnið fram undan.“

Jóhannes telur að mikil tækifæri felist í íslenskri ferðaþjónustu.

„Ég er bjartsýnn á framtíð íslenskrar ferðaþjónustu og tel að umhverfið, greinin og framlag hennar og samspil við samfélagið verði enn betra með árunum ef við tökum réttu skrefin,“ segir Jóhannes í viðtali við ViðskiptaMoggann í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK