Gera yfirtökutilboð í Eik

Eik á m.a. skrifstofuhúsnæði í Álfheimum 74 og á Smáratorgi …
Eik á m.a. skrifstofuhúsnæði í Álfheimum 74 og á Smáratorgi 3 og verslunarhúsnæði á Glerártorgi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjárfestingafélagið Langisjór hefur eignast meira en 30% hlut í fasteignafélaginu Eik og mun gera öllum hluthöfum félagsins yfirtökutilboð vegna tilboðsskyldu sem myndast þegar eignarhluturinn fer yfir 30%.

Langisjór ehf. Er móðurfélag fjölda fyrirtækja sem er í eigu systkina sem jafnan eru kennd við matvælafyrirtækið Mata. Þetta eru þau Guðný Edda, Eggert Árni, Halldór Páll og Gunnar Þór Gíslabörn og fjölskyldur þeirra.

Eiga Ölmu, Síld og fisk og Freyju

Meðal fyrirtækja sem eru í fyrirtækjasamstæðunni eru Alma íbúðafélag, Brimgarðar, Mata, Matfugl, Salathúsið, Síld og fiskur og Freyja.

Gunnar Þór Gíslason hefur verið í forsvari fyrir Brimgarða og …
Gunnar Þór Gíslason hefur verið í forsvari fyrir Brimgarða og á félagið Síldarbein. Hann og þrjú systkini hans eiga félagið Langasjó til jafns.

Samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar er fyrirhugað að yfirtökutilboðið verði á genginu 11 krónur á hlut, en það er sama gengi og við upphaf viðskipta í dag.

Komin með yfir 30% hlut

Fram kemur að Langisjór hafi fyrr í dag keypt 6 milljónir hluta í Eik, auk þess að taka við 442 milljón hlutum frá dótturfélagi sínu Brimgörðum, en Brimgarðar voru fyrir viðskiptin stærsti einstaki hluthafi Eikar með 563,6 milljónir hluta. Nemur það 16,5% hlut í félaginu.

Fram kemur að Langisjór og aðilar sem tengjast Langasjó séu eftir viðskiptin með sem nemur 30,06% atkvæðisréttar í Eik.

Samstarfsaðilar Langasjós í yfirtökutilboðinu eru Brimgarðar og félagið Síldarbein ehf. Er Síldarbein í eigu Gunnars Þórs Gíslasonar, en hann er í systkinahópnum. Samkvæmt síðasta eigendalista sem uppfærður var 12. Ágúst, var eignarhlutur Síldarbeins 17,45 milljónir hlutir.

Reginn reyndi áður að taka yfir Eik

Í fyrra gerði fasteignafélagið Reginn (sem nú heitir Heimar) yfirtökutilboð í Eik, en þá lagðist systkinahópurinn gegn yfirtökunni, þó síðar hafi verið sagt að þau hafi mildast í afstöðu sinni til yfirtökunnar. Í apríl á þessu ári varð hins vegar ljóst að ekkert yrði af yfirtökunni, eftir um 11 mánaða vinnu, og afturkallaði Reginn þá yfirtökutilboðið.

Eik er eitt af þremur stærstu fasteignafélögum landsins sem skráð eru í Kauphöllina. Meðal helstu eigna félagsins eru meðal annars Borgartún 21, Borgartún 26, Suðurlandsbraut 8 og 10, Pósthússtræti 2 (gamla Eimskipshúsið), Smáratorg 3 (Turninn), Nýi Glæsibær og fjöldi fasteigna í miðbæ Reykjavíkur, sem og Glerártorg á Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK