Eina hópmálsóknin „málsóknir Skúla gegn hópi fólks“

Skúli Gunnar Sigfússon, kenndur við Subway, hyggst höfða mál gegn …
Skúli Gunnar Sigfússon, kenndur við Subway, hyggst höfða mál gegn Sveini Andra Sveinssyni. Samsett mynd

„Eina hópmálsóknin sem er í gangi eru málsóknir Skúla gegn hópi fólks. Hann er búinn að fara í gegnum málsókn gegn Logos og KPMG og fór með skottið á milli lappanna frá þeim málatilbúnaði. Nú heldur hann áfram,“ segir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður, í kjölfar fregna af því að Skúli Gunnar Sigfússon hyggist höfða mál gegn sér.

Málsóknin er sögð byggja á þeim grunni að dómkvaddur matsmaður telur Svein hafa skrifað á sig of margar vinnustundir sem skipta­stjóri þrota­bús­ins EK1923 ehf. við slit á búinu auk þess að hafa innheimt of hátt tímagjald. 

Í mats­gerð sem matsmaður skilaði í júní sl., og Morg­un­blaðið hef­ur und­ir hönd­um, kem­ur fram að hæfi­leg þókn­un til skipta­stjóra hefði átt að nema 74-87 millj­ón­um króna en Sveinn Andri fékk þóknun upp á um 170 milljónir króna. 

Þá kemur jafnframt fram að lögmaður Skúla hafi sent bréf á kröfuhafa í búið þar sem þeim er boðið að taka þátt í málarekstri gegn Sveini Andra.

Telur Skúla eiga að líta í eigin barm 

„Ef hlutirnir ganga ekki upp hvort sem það er í einkalífi eða viðskiptum, þá er ekkert endalaust hægt að leita til dómstóla til að laga hlutina. Stundum þurfa menn að horfast í augu við hlutina og líta í eigin barm,“ segir Sveinn Andri.

En nú metur matsmaður hlutina sem svo að of margar stundir hafi verið rukkaðar og að tímagjald hafi verið of hátt. Hvernig bregstu við því?

„Skiptaþóknun mín og það sem matsmaðurinn horfir ekki á er m.a. tilkomin vegna þess að það voru önnur mál sem ég þurfti að höfða til þess að verja hagsmuni búsins. Meðal annars riftunarmál gegn ríkinu sem vannst og mál gegn stórum birgja þar sem gerð var réttarsátt,“ segir Sveinn Andri.

Segir Skúla hafa greitt meira til lögmanna 

Þá segir hann að þóknun hans í málinu sé lægri en sú sem Skúli greiddi lögmönnum sínum í málinu.

„Hann var í málarekstri gegn þrotabúinu og kostnaðurinn sem hann borgaði sínum lögmönnum var hærri tala en sú sem nam skiptakostnaði þrotabúsins,“ segir Sveinn Andri.

Segir kröfuhafa ánægða 

Þá fullyrðir Sveinn Andri að kröfuhafar hafi verið ánægðir með heimtur úr búinu.

„Kröfuhafar voru feikilega ánægðir með heimtur. Allar forgangskröfur voru greiddar, kröfur utan skipta, almennar kröfur og 59% af svokölluðum eftirstöðvarkröfum sem eru dráttarvextir og kostnaður sem fellur til eftir úrskurðardag. Þetta er einsdæmi í sögu skiptaréttar þessi árangur sem náðist. Það er aðalatriðið í málinu og ég hef ekki áhyggjur af þessu,“ segir Sveinn Andri.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK