Alcoa Fjarðaál hefur stefnt Eimskipafélagi Íslands og Samskipum vegna meints tjóns vegna samráðs skipafélaganna. Krafist er rúmlega þriggja milljarða í skaðabætur.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eimskipum.
Eimskip gengust við því að hafa átt í samráði við Samskip á tímabilinu 2008 til 2013 en Samskip hafa ávallt hafnað því.
„Eimskipafélagi Íslands hf. hefur borist stefna frá Alcoa Fjarðaáli sf. á hendur Samskipum hf., Samskipum Holding B.V., Eimskip Ísland ehf. auk Eimskipafélags Íslands hf.
Með stefnunni er krafist skaðabóta að fjárhæð 3.086.000.000 króna, auk dráttarvaxta frá 24. maí 2024, óskipt úr hendi félaganna vegna meints tjóns stefnanda af sakarefni ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 33/2023, sem laut að árunum 2008-2013,“ segir í tilkynningu Eimskipa.
Fram kemur í tilkynningunni að fjárkrafa Alcoa byggi alfarið á minnisblaði ráðgjafafyrirtækisins Analytica ehf., sem innihaldi svonefnt frummat, frá 21. febrúar 2024.
Eimskip segir að ráðgjafafyrirtækið Hagrannsóknir sf., sem fræðimennirnir dr. Birgir Þór Runólfsson dósent og deildarforseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands og dr. Ragnar Árnason prófessor emeritus standa að, hafi yfirfarið umrætt minnisblað og unnið skýrslu um efni þess.
„Niðurstaða þeirra er afgerandi um að vankantar þess séu svo alvarlegir að minnisblaðið sé í heild ónothæft sem mat á meintu tjóni,“ segir í tilkynningu Eimskipa.
Þá kemur fram að það sé mat Eimskipa að ekkert tilefni sé til málsóknar þar sem skilyrði skaðabótaskyldu séu „ekki uppfyllt“. Þá sé ætlað fjártjón stefnanda „engum haldbærum gögnum studd“. Eimskip hefur þegar falið lögmanni að taka til varna í málinu.