Rekstrarhagnaður Sýnar hf. nam 169 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2024, samanborið við 1.002 milljónir á sama tímabili í fyrra.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sýn en þar segir að tap eftir skatta á tímabilinu hafi numið 339 milljónum samanborið við 483 milljóna króna hagnað í fyrra. Greint verður ítarlegar frá þessu í fjárfestakynningu sem birt verður fyrir fjárfestafund sem haldinn verður í dag.
Tekjur Sýnar á fyrstu sex mánuðum námu 11.416 milljónum króna og drógust saman um 0,7% frá sama tímabili í fyrra. Sé einungis horft til annars ársfjórðungs þá nam tekjusamdrátturinn 2,7%.
Tekjur drógust saman um tæplega 1% fyrstu sex mánuði ársins. Óreglulegir tekjuliðir eins og IoT og búnaðarsala hjá Endor höfðu áhrif til lækkunar. Þá segir að góður vöxtur hafi verið í fjölmiðlun og Interneti.
Fram kemur að kostnaðarverð hafi numið 7.746 m. kr á fyrri helmingi ársins og hafi aukist um 5,7% milli ára sem skýrist að mestu af hærri afskriftum sýningarrétta en afskriftir þeirra á fyrri helmingi ársins 2023 voru lægri vegna endursamninga við birgja sem skiluðu lækkun afskrifta upp á 366 m.kr. á tímabilinu.
Í tilkynningu frá Sýn segir enn fremur að árangur félagsins á fyrri helmingi ársins sé í fullu samræmi við forsendur afkomuspár fyrir árið 2024 sem félagið birti 2. júlí síðastliðinn og gerir ráð fyrir að rekstrarhagnaður (EBIT), án nokkurra leiðréttinga vegna einskiptiskostnaðarliða, verði á bilinu 900-1.100 m.kr.
„Sýn hefur náð góðum árangri á lykilsviðum. Tekjur af fjölmiðlastarfsemi og þjónustutekjur eru á góðri uppleið og við sjáum jákvæða þróun í fjölda viðskiptavina í IoT þrátt fyrir tímabundinn samdrátt í tekjum. Á þessu sviði eru fjölmörg spennandi tækifæri til vaxtar,“ er haft eftir Herdísi Dröfn Fjeldsted, forstjóra Sýnar hf., í tilkynningunni.