Bræðurnir Sigurður Gísli og Jón Pálmasynir hafa undirritað samkomulag um sölu á rekstri IKEA í Eistlandi, Lettlandi og Litháen.
Það er eignarhaldsfélagið Inter IKEA Group sem tekur við rekstrinum í Eystrasaltsríkjunum þremur, að því er segir á vef IKEA.
Bræðurnir munu áfram reka verslun IKEA á Íslandi.
Gert er ráð fyrir því að kaupin gangi í gegn undir lok þessa árs. Þau fela m.a. í sér rekstur þriggja verslana IKEA. Núna starfa 1.450 manns hjá IKEA í Eystrasaltslöndunum þremur. 6,6 milljónir gesta komu þangað á síðasta ári.
„Eftir 12 vel heppnuð ár erum við mjög ánægðir með að færa starfsemina í hendur langtíma viðskiptafélaga okkar, Inter IKEA Systems B.V.,“ segir Sigurður Gísli m.a. í tilkynningunni. „Það eru spennandi tímar fram undan með mörgum tækifærum til að vaxa og styrkja vörumerki IKEA í Eystrasalti.“