Regus fagnar um þessar mundir því að tíu ár eru liðin frá opnun fyrsta skrifstofusetursins sem bauð upp á heildarlausnir og meiri sveigjanleika fyrir fyrirtæki á Íslandi stór sem smá á skrifstofum og fundarrýmum – „hybrid“ vinnuaðstöðu. Regus á heimsvísu er 33 ára.
Tómas Ragnarz, stofnandi og forstjóri fyrirtækisins, segir að frekari uppbygging sé fram undan. Regus á Íslandi sjái mikil tækifæri í að fjölga starfsstöðvum í úthverfum og á landsbyggðinni.
Hann segir að í tilefni áfangans hyggist Regus bæta við þjónustu sína og opna svokallað Regus Club House á Laugavegi 14 fyrir meðlimi sína í september.
„Þar munum við bjóða upp á kaffihús / Dixon Lounge ásamt veitingum fyrir viðskiptavini okkar. Við hyggjumst líka gefa nýjum viðskiptavinum okkar afmælisgjöf í formi hagstæðari kjara á leigu, fundarherbergjum og þjónustu og svo framvegis. Við þetta má bæta að í febrúar síðastliðnum opnuðum við 1.550 fermetra skrifstofusetur á Kirkjusandi en fyrir vorum við einnig á Hafnartorgi og í Garðabæ á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þannig að það er og hefur verið margt á döfinni hjá okkur,“ segir Tómas.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær, laugardag.