Guðjón Auðunsson, fyrrverandi forstjóri Reita fasteignafélags, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri ÍSEY útflutnings ehf. Guðjón er rekstrarhagfræðingur að mennt og hefur víðtæka og fjölbreytta reynslu úr íslensku atvinnulífi.
Þetta kemur fram í tilkynningu.
Þar segir jafnframt, að megin verkefni nýs framkvæmdastjóra, í samvinnu við teymi starfsmanna ÍSEY hér á landi og erlendra samstarfsaðila, sé að stuðla að enn frekari sókn á erlenda markaði með vörur og vörumerkið ÍSEY.
ÍSEY er systurfélag Mjólkursamsölunnar, stofnað árið 2018 í þeim tilgangi að halda utanum erlenda starfsemi og útrás með vörur félagsins. ÍSEY er í eigu Auðhumlu (80%) og KS (20%).