Norræn gufubaðsmenning festir sig sífellt meira í sessi á Íslandi og færist í vöxt að einstaklingar fái sér sánaklefa út í garð eða inn á heimilið. Þá er heimsókn í gufubað orðin fastur liður í sundlaugarferðum ýmissa og hin mörgu baðlón landsins státa sömuleiðis af fjölbreyttum gufuklefum.
Leiðandi fyrirtæki í þessum geira er Sauna á Smiðjuvegi 1 í Kópavogi.
Páll Kristjánsson, eigandi og framkvæmdastjóri, vill aðspurður í samtali við Morgunblaðið ekki tala um vakningu í þessum efnum heldur sé um stigmagnandi vöxt að ræða. „Þetta hefur vaxið stig af stigi síðastliðin tíu ár, eða frá því að ég seldi Vatnsvirkjann árið 2014. Þá tók ég með mér umboðið fyrir sænska gufubaðsmerkið Tylö. Fljótlega í kjölfarið fór ferðamannabransanum að vaxa fiskur um hrygg og hótel og lón að spretta upp víða um land,“ segir Páll. „Þetta er búið að vera svona 20% aukning á hverju ári síðan.“
Hann segir það einnig hafa hjálpað til hvað aðgengi að upplýsingum um heilsusamleg áhrif gufubaða sé orðið gott á netinu.
„Við sérsmíðum gufur, bæði þurr-, blaut- og innrauðar, en einnig seljum við tilbúna klefa. Við höfum verið að störfum í öllum baðlónum landsins og vinnum mikið með verkfræðingum og arkitektum að ráðgjöf, undirbúningi og smíði. Við leggjum mikið upp úr góðri þjónustu.“
Páll segir að um ákveðin margfeldisáhrif sé að ræða og gufuböðin breiðist um bæði íbúða- og sumarhúsahverfi. „Þetta er fljótt að spyrjast út. Um daginn kom til mín þekktur fótboltamaður og sagði að eftir að hann fékk sér sánu hefði hann farið að sofa og hvílast betur eftir æfingar.“
Gufubaðsmenningin er stór hluti af lífi fólks í Eistlandi, Finnlandi, Svíþjóð og fleiri löndum. „Þú verður léttari og betri í skapinu við að stunda gufuböð, það er margsannað og rannsakað. Hjá þjóðum eins og okkur þar sem veturinn er langur hjálpar þetta mönnum að þreyja þorrann. Við búum að 200 ára rannsóknum á heilsusamlegum áhrifum þessara baða.“
Nýjasta viðbótin í þjónustu Sauna er snjóklefar. Þeir eru eins og nafnið ber með sér kaldir en ekki heitir. Gestir upplifa þar snjókomu og gott er að bregða sér inn í 7–10° heitan klefann eftir að hafa setið í gufunni. „Við erum að setja fyrsta snjóklefa landsins inn í nýjan og glæsilegan baðstað á Hótel Keflavík. Það verður líklegast flottasta spa á landinu og verður opnað á haustmánuðum.“
Einnig verður boðið upp á kampavínssturtu á baðstaðnum að sögn Páls. „Það er ekkert til sparað. “
Innrauðar gufur eru í töluverðri sókn að sögn Páls. „Ástæðan fyrir því er að hitinn er lægri, en þú svitnar samt vel. Áhrifin eru að mörgu leyti eins og í sána. Mörgum konum hugnast innrauða gufan betur.“
Spurður um aukahluti eins og gufuhúfur, húðkrem og birkihríslur til að slá sig með segir Páll að það sé allt í boði hjá Sauna. „Það eykur blóðflæðið að slá sig aðeins með hríslunum. Svo er gott að fara alltaf tvisvar í sánu, taka sér smá pásu og fara aftur inn.“
Sem dæmi um vinsældir gufubaðanna segir Páll að sundlaugargestir verði oft mjög hvekktir ef gufubaðið bilar. „Fólk vill sína gufu. Við erum núna að endurnýja blautgufuna í Sundhöll Reykjavíkur. Hún var ekki rétt hönnuð í upphafi og við erum að taka hana algjörlega í gegn.“
Fargufur, eins konar gufuhús á hjólum, njóta einnig sívaxandi vinsælda. „Þær eru gjarnan staðsettar nálægt sjónum og fólk getur þá stokkið í hafið og kælt sig niður. Margir upplifa sína fyrstu ferð í sána í þessum gufum og verða heillaðir. Svo koma þeir kannski hingað og vilja endilega kaupa gufu til að hafa heima hjá sér.“
Spurður um veltuna segir Páll að hún verði líklega um 250 milljónir í ár en eins og fyrr sagði aukast viðskiptin um 20% ár frá ári.
Páll segir aðspurður að það kosti á bilinu eina til þrjár milljónir króna að kaupa sér gufu heim til sín, hvort sem er úti- eða innigufu.
Páll segir að lokum að hann hafi verið í fyrirtækjarekstri meira og minna í 35 ár en gufubaðssalan sé það skemmtilegasta sem hann hafi gert um ævina. „Gleðin skín úr augum fólks þegar það fær gufuna uppsetta. Oft notar öll fjölskyldan þetta reglulega, stundum fimm sinnum í viku.“