Fyrirtækið Abler hefur verið valið Vaxtarsproti ársins en velta fyrirtækisins ríflega tvöfaldaðist milli ára. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, afhenti Vaxtarsprotann 2024 í Flórunni í Grasagarðinum í Laugardal fyrr í dag.
Sprotafyrirtækið Abler þróar hugbúnað sem einfaldar og eflir íþrótta- og tómstundastarf með því að tengja saman iðkendur, foreldra, þjálfara og skipuleggjendur.
Velta fyrirtækisins fór úr 104 milljónum króna í 220 milljónir króna. Starfsmenn Abler eru 30 talsins.
Haft er eftir Markúsi Mána M. Maute, meðstofnanda og framkvæmdastjóra Abler í fréttatilkynningu:
„Það er mikill heiður og hvatning að fá þessa viðurkenningu. Við höfum verið lánsöm að vera í góðu samstarfi við fjölda aðila hér á landi sem eru að hlúa að líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu í gegnum starfsemi sína á hverjum degi.
Við áformum að þróa áfram framsæknar lausnir sem verða virðisaukandi fyrir íslenska íþróttahreyfingu og samfélagið í heild sinni með það að leiðarljósi að gera gott starf enn betra.“
Þá hlaut Ankeri Solutions viðurkenningu fyrir góðan vöxt. Velta fyrirtækisins jókst um 81% á milli ára, fór úr 54 milljónum króna í tæplega 98 milljónir króna.
Hugbúnaður Ankeri Solutions tengir saman eigendur flutningaskipa og leigjendur þeirra. Markmið fyrirtækisins er að hugbúnaður fyrirtækisins bæti rekstur og skilvirkni í skipaiðnaðinum sem skili sér í hagræðingu í rekstri heimsflutninga.
Þetta er í 18. sinn sem Vaxtarsproti ársins er afhentur en vaxtarsprotinn er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Háskólans í Reykjavík og Rannsóknarmiðstöðvar Íslands.
Tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja.
Dómnefndina í ár skipuðu þær Ólöf Vigdís Ragnarsdóttir fyrir Háskólann í Reykjavík, Svandís Unnur Sigurðardóttir fyrir Rannís, Ellen María Schweitz Bergsveinsdóttir fyrir Samtök sprotafyrirtækja og Erla Tinna Stefánsdóttir fyrir Samtök iðnaðarins.