Auglýsingastofan Pipar\TBWA var í vor valin auglýsingastofa ársins á ÍMARK deginum, en ÍMARK eru samtök íslensks markaðsfólks. Pipar\TBWA hefur verið í fremstu röð á Íslandi og nýtur þess að vera í samstarfi við eina stærstu keðju auglýsingastofa í heiminum, TBWA.
„Við höfum verið í efstu þremur sætunum síðastliðin tíu ár. Við höfum nokkrum sinnum náð á toppinn, eins og í ár. Það er gaman að endurheimta toppsætið,“ segir Guðmundur í samtali við ViðskiptaMoggann.
Hann segir að nokkrir mælikvarðar séu jafnan lagðir til grundvallar við val á auglýsingastofu ársins. Þar á meðal sé hugmyndaauðgi.
„Það hefur verið helsta söluvara okkar síðustu ár. Hér innanhúss er hópur fólks með mikla og góða reynslu. Í þessum bransa er fólkið einmitt aðalatriðið, því hugmyndir og ráðgjöf eru það sem þetta gengur aðallega út á. Einnig er árangursmæling stór hluti af þjónustu okkar. Við erum árangursdrifin, setjum okkur stefnu og mælum hvort við náum markmiðum okkar.“
Guðmundur segir að hugmyndafólk stofunnar sæki sér m.a. reglulega þekkingu og reynslu erlendis og vinni með kollegum innan TBWA.
„Hugmyndastjórar okkar hafa til dæmis verið að dæma í keppnum erlendis. Þessi tenging skilar sér öll hingað heim í betri vinnu og ferskari hugmyndum.“
TBWA er ein stærsta auglýsingakeðja í heimi eins og fyrr sagði og er með skrifstofur um allan heim, þar á meðal á Norðurlöndunum. TBWA rekur bæði eigin stofur og gerir samstarfssamninga við aðila eins og Pipar\TBWA. Þá er greitt ákveðið árgjald fyrir notkun á TBWA-vörumerkinu og aðgang að sérfræðiþekkingu, eins og Guðmundur útskýrir.
„Það er mjög gott fyrir okkur að vera í þessu samstarfi. Við höfum nýtt það vel. Þetta sést í því hvernig við nálgumst auglýsingastarfið, hugmyndavinnustrategíuna og margt sem er undir yfirborðinu. Þetta er nokkuð sem viðskiptavinirnir sjá en aðrir kannski ekki.“
Guðmundur hóf störf í auglýsingabransanum fjórtán ára gamall.
„Ég byrjaði sem sendill hjá föður mínum, sem rak á þeim tíma auglýsingastofuna Örkina. Hann hætti svo í geiranum og flutti til Svíþjóðar fyrir um þrjátíu árum.“
Bandaríkin voru næsti viðkomustaður hans.
„Ég fór í nám í auglýsingafræðum í Kaliforníu og lauk þar BS-prófi. Það var gaman að læra í Ameríku og sérstaklega þessi auglýsingafræði, sem ekki margir hér á landi hafa lagt stund á. Bandaríkin eru mekka auglýsinga og markaðssetningar.“
Við heimkomuna gerðist Guðmundur markaðsstjóri og starfaði fyrst hjá bifreiðaumboðinu BL. Síðar réðst hann til IKEA og flugfélagsins Iceland Express.
„Svo kom að því að ég færði mig hinum megin við borðið. Ég kom inn í auglýsingastofu sem varð samstarfsaðili TBWA. Hún sameinaðist svo auglýsingastofunni Pipar árið 2009. Valgeir Magnússon, sem stýrir starfsemi okkar í Noregi í dag, var þar framkvæmdastjóri. Árið 2014 stækkuðum við aftur með sameiningu við auglýsingastofuna Fíton.“
Stafræna markaðsstofan Engine bættist svo í hópinn árið 2018.
„Engine er núna hluti af Pipar\TBWA og hefur farið í sjálfstæða útrás. Hún er þannig hluti af TBWA-stofunni okkar í Noregi og er einnig inni á TBWA-stofu í Danmörku sem sjálfstæð eining. Þá er hún innandyra hjá TBWA í Finnlandi, sömuleiðis sem sérstök eining.“
Eins og Guðmundur útskýrir var það farsælt skref að innlima Engine í starfsemina, enda verður áherslan á stafrænar netlausnir sífellt mikilvægari.
„Þekkingin sem býr í Engine nýtist líka í skapandi hluti innan Pipars\TBWA þar sem við búum til efni á vefsíður, á samfélagsmiðla og netmiðla. Allt kemur þetta saman í eina heild.“
Þannig býður Pipar\TBWA að sögn Guðmundar upp á heildstæða 360° þjónustu.
„Strategía, hugmyndavinna, birtingar og almannatengsl eru allt hluti af 360 ° þjónustu okkar. Almannatengsladeildin er nýjasta viðbótin, en við réðum fjölmiðlakonuna Láru Ómarsdóttur til okkar í vor. Sú deild fer nú stækkandi. Almannatengsl eru stór hluti af því hvernig við tölum við almenning.“
Blaðamaður spyr hvort hraðinn í auglýsinga- og markaðsheiminum fari ekki sífellt vaxandi og starfið verði um leið flóknara. Guðmundur samsinnir því.
„Fyrir þrjátíu árum gat maður sett auglýsingu á blaðsíðu þrjú í Morgunblaðinu og náð sambandi við 90% Íslendinga. Í dag hefur margt breyst með tilkomu internetsins og samfélagsmiðla.“
Kynning á Íslandi sem ferðamannalandi er Guðmundi hugleikin, þó svo að hann sé ósáttur við að útlensku fyrirtæki, M&C Saatchi, hafi verið falið að auglýsa landið í faraldrinum í samstarfi við íslenska fyrirtækið Peel.
„Við erum alltaf í skammtímalausnum. Nú hefur Ísland ekki verið áberandi í erlendum miðlum síðasta eitt og hálft ár. Það er ekki gáfulegt að mínu mati. Markaðssetningin þarf að vera stöðug. Það þýðir ekki að hætta. Það verður að halda áfram og hugsa þetta sem langtímaverkefni. Coca-Cola hættir aldrei að auglýsa og Ísland ætti sömuleiðis að kynna sig markvisst öllum stundum.“
Pipar\TBWA hefur þá sérstöðu meðal auglýsingastofa á Íslandi að hafa ráðist í útrás.
„Við stofnuðum stofu í Noregi fyrir þremur árum sem gengur vel. Við byrjuðum með 3-4 starfsmenn en keyptum svo fimm manna stofu og sameinuðumst henni. Þá keyptum við stóra vörumerkjastofu, Scandinavian Design Group. Þar bættust við tuttugu starfsmenn og við fengum um leið inn til okkar mikla þekkingu á vörumerkjum, hönnun þeirra og strategíu. Stofan er mjög vel þekkt á Norðurlöndum og hefur unnið fyrir mörg stór fyrirtæki í Evrópu. Þessi alþjóðlega þekking í vörumerkjastjórnun og markaðssetningu mun nýtast vel á íslenska markaðinum. Það verður gaman að koma með þá reynslu hingað til lands.“
Eitt af verkefnum norska útibúsins var fyrir The Atlantic Groundfish Council (AGC). „Það sér um markaðssetningu á kanadískum fiski frá austurströnd Kanada í Evrópu, Afríku og Asíu. Þau leituðu til okkar, enda er almennt viðurkennt að Norðmenn og Íslendingar eru manna bestir í að selja fisk. Þessi vinna hefur gengið vel og við munum segja nánar frá verkefninu hér á landi innan tíðar, meðal annars vegna þess að við teljum að íslenskur sjávarútvegur eigi mikið inni. Það skiptir svo miklu máli að búa til sterkt vörumerki. Það hafa Norðmenn upplifað í gegnum Norwegian Salmon, sem er orðið heimsþekkt og gríðarsterkt vörumerki.“
Guðmundur vill gera það sama fyrir íslenska þorskinn. „Hann þarf að verða þekktur um allan heim. Því miður hefur ekki enn náðst samstaða um alvöru markaðssetningu á honum á heimsvísu.“
Guðmundur vísar til erlends fyrirlesara sem heimsótti Íslandi nýlega. Sá sagði að íslenski þorskurinn ætti að vera jafn vel þekktur í heiminum fyrir gæði og ítalska tískumerkið Gucci. Vörumerkið ætti að standa fyrir gæði, rétt eins og tekist hefði að gera við norska eldislaxinn.
„Íslenskur fiskur er í toppklassa og við viljum fá hærra verð fyrir hann, eða það hlýtur að vera eitthvað sem menn geta sammælst um. Til þess þarf að byggja upp sterkt vörumerki.“
Guðmundur segir að hugsa verði til langs tíma. Ekki sé nóg að fara í átak til skamms tíma.
Eins og Guðmundur og blaðamaður ræða er ekki um auðugan garð að grisja þegar kemur að heimsþekktum íslenskum vörumerkjum. Þar megi helst nefna tónlistarfólk og íþróttafólk.
„Tónlistar- og íþróttafólk sem nær athygli á alþjóðavísu getur verið gríðarlega mikilvæg landkynning, og meiri en fólk áttar sig almennt á. Þetta sýndi sig t.d. þegar íslenska karlalandsliðið spilaði í heimsmeistarakeppninni í fótbolta í Rússlandi. Þá var liðið mikið gúgglað um allan heim. Það er synd hve fáir íslenskir íþróttamenn voru að keppa á Ólympíuleikunum í Frakklandi í sumar, af sömu ástæðu. Stjórnvöld og aðrir hagaðilar þurfa að opna augun fyrir mikilvægi þess fyrir landið í heild sinni að hlúa betur að menningu og íþróttum.“