Guðmundur Pálsson framkvæmdastjóri Pipars\TBWA segir að nýjasta nýjasta viðbótin í auglýsingaflóruna sé myndbandsmiðillinn TikTok. „Í nýafstöðnum forsetakosningum sá fólk mikla notkun frambjóðenda á TikTok. Flestir þeirra nýttu sér miðilinn með góðum árangri. TikTok er orðið hluti af þessari stóru heild sem við vinnum með.“
Guðmundur segir að notkun TikTok í markaðssetningu krefjist mikillar vinnu og einbeitingar.
„Þar snýst allt um að gera efni, enda er lokað á auglýsingar inni á miðlinum, öfugt við útlönd þar sem hægt er að birta auglýsingar. Það þarf að búa til efni reglulega og setja inn jafnvel mörgum sinnum á dag til að ná athygli. Sú vinna er núna hluti af samskipta- og almannatengsladeild, en skilaboðin á TikTok þurfa samt að ríma við heildarskilaboð hvers vörumerkis. Þetta er allt að verða flóknara, en við erum samt með mjög góðar mælingar á TikTok sem hægt er að styðja sig við.“
Guðmundur segir að þróunin í auglýsingageiranum á síðustu árum hafi verið að hvert og eitt fyrirtæki sé í auknum mæli farið að byggja sér upp sína sjálfstæðu fjölmiðlun í gegnum eigin vefsíður og samfélagsmiðla.
„Við komum þá inn og hjálpum til við að móta skilaboðin til viðskiptavinanna. Okkar vinna snýst enda mikið um að vekja athygli á vörumerkjunum og sníða skilaboð að réttum markhópum.“
Bæklingagerð og gerð einblöðunga sem dreift er inn á heimili fólks, sem áður var drjúgur hluti af starfi auglýsingastofa, er á hröðu undanhaldi að sögn Guðmundar, þó að enn sé það öflugur miðill. Fyrirtækin leggja í staðinn alla áherslu á að vefsíður séu góðar, eins og fyrr sagði. Þar finni fólk allar nauðsynlegar upplýsingar á hverjum tíma, sem áður voru tíundaðar í bæklingum.
„Það er líka mjög mikilvægt að vefsíðan sé „gúgglanleg“, þ.e. að hún finnist auðveldlega við leit. Í dag leitarðu bara á netinu ef þig vantar eitthvað. Þú skimar, finnur vöruna, berð saman verð og ferð svo á staðinn, eða pantar heim. Við veitum ráðgjöf varðandi þetta.“
Birtingarmál eru einnig að breytast í takt við nýja tíma.
„Birtingaféð fer í dag meira og meira í þessa eigin miðla fyrirtækja og við aðstoðum við það. Það má segja að auglýsingaféð sé að skiptast á fleiri staði í dag en áður.“
En hver er þá staða hefðbundinna miðla, eins og dagblaða, útvarps og sjónvarps? Guðmundur segir að nauðsynlegt sé að vera sýnilegur alls staðar, á einhverjum tímapunkti. Þar sé sjónvarpið einna sterkast, enda leiki það á öll skynfærin.
„Umhverfismiðlar hafa einnig stækkað mikið í birtingum. Skiltunum hefur fjölgað og þau eru orðin stafræn, sem þýðir að það er orðið auðveldara að koma skilaboðum þar inn. Einnig er alltaf sterkt að auglýsa á stóru vefmiðlunum eins og mbl.is og vísir.is enda eru auglýsingar þar aðeins einum smelli frá vefsíðunni þar sem upplýsingarnar bíða. Heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu getur svo virkað vel fyrir ákveðinn markhóp til að minna fólk á að koma inn í búðina.“
Almennt séð eru það samt alltaf gögnin sem ráða því hvert birtingaféð ratar.
„Við vitum hvaða hópar eru hvar. Morgunblaðið sem dæmi er með ákveðinn hóp sem er mjög sterkur. Það þarf að auglýsa á fleiri en einum miðli til að ná árangri.“
Spurður hvernig gangi að ráða gott fólk til starfa segir Guðmundur að Pipar\TBWA sé heppið með að þar vilji fólk vinna.
„Vörumerkið okkar er þekkt. Fólk horfir til þess hve mikið við leggjum upp úr því að vera góður vinnustaður. Við höfum verið valin fyrirmyndarfyrirtæki VR, fengið jafnlaunavottun og jafnvægisvog FKA, svo dæmi séu tekin. Þetta skiptir allt máli. Svo notum við samfélagsmiðla okkar til að sýna hve gaman er að vinna hér. Verkefnin eru fjölbreytt og vinnustaðurinn opinn.“
Allur aldur er nauðsynlegur á vinnustaðnum.
„Það er mikilvægt að fá inn ungt fólk með nýjar hugmyndir. Við leggjum mikið upp úr góðri blöndu af fólki. Í hvert einasta sinn sem nýtt verkefni hefst kemur stórt teymi að því sem vinnur með hugmyndir, birtingar, strategíu og fleira. Svo mælum við árangurinn.“
Þá segir Guðmundur að viðskiptavinir Pipars\TBWA séu góðir og til í að gera áhugaverða og góða hluti. Það sé forsenda fyrir því að athyglisverðar auglýsingar líti dagsins ljós.
„Þeir verða að vera til í tuskið. Mottó eins frægasta hönnuðar TBWA-keðjunnar, Lee Clow, er að ef þú ert ekki hræddur við að ýta herferð úr vör áttu ekki að fara af stað. Þetta þýðir að þú þarft að vera pínu skelkaður, taka smá áhættu. Ef þetta er of öruggt eru líkur á að enginn muni taka eftir auglýsingunni. Það þarf að dansa á línunni. Þessa hugsun höfum við tileinkað okkur og segjum viðskiptavinum okkar.“
Spurður um samkeppni meðal íslenskra auglýsingastofa segir Guðmundur hana harða.
„Við erum með mjög margar góðar stofur og mikið af flottu fólki.“
Eins og alkunna er sveiflast rekstur auglýsingastofa gjarnan eftir efnahagsástandinu. Oft er sagt að þær séu með fyrstu fyrirtækjum til að finna fyrir samdrætti. Guðmundur segist ekki hafa fundið fyrir mikilli dýfu á markaðinum síðustu misseri. Viðskiptin hafi verið nokkuð stöðug síðustu tvö ár.
„Ég bjóst við dýfu á síðasta ári í þessu ástandi. Kjarasamningagerð, óhagstætt vaxtastig og fleira hefði getað valdið samdrætti hjá auglýsingastofum, en það gerðist ekki. En það er erfitt að spá um næstu mánuði. Við sjáum jafnan stutt fram í tímann.“
Framkvæmdastjórinn ítrekar gildi þess fyrir fyrirtæki að spara ekki við sig í markaðssetningu og auglýsingabirtingum þegar kreppir að.
„Við höfum alltaf sagt, og gögnin segja það mjög skýrt líka, að þeir sem halda sjó í samdrætti og halda áfram að minna á sig komi best út þegar kreppunni lýkur. En auðvitað skilur maður ef fólk dregur úr auglýsingum í þannig árferði. Það er því miður auðvelt að taka ákvörðun um niðurskurð markaðsfjár.“
Guðmundur nefnir dæmi mál sínu til stuðnings.
„Það er til fræg saga um matvælafyrirtækið Kellogg’s á tímum kreppunnar miklu í Bandaríkjunum þar sem það auglýsti af kappi á meðan samkeppnin dró verulega úr auglýsingum. Eftir kreppuna var Kellogg’s með yfirburði í markaðshlutdeild og það gerði fyrirtækið að þeim risa sem það er í dag.“
Talið berst að endingu aftur að erlendum samfélagsmiðlum. Aðspurður segir Guðmundur að enginn noti lengur Snapchat í markaðssetningu.
„Þeir leyfa ekki auglýsingar á Íslandi og forritið sjálft er ekki fýsilegt til markaðssetningar, enda mest notað í lokuðum hópum. Miðlar Meta, Facebook og Instagram, eru hins vegar mikið notaðir, en X hefur aldrei náð nógu miklu flugi á Íslandi til að nýtast sem auglýsingamiðill. Aftur á móti er LinkedIn öflugur miðill á fyrirtækjamarkaði. Við höfum nýtt okkur hann mikið fyrir fyrirtæki sem eru á B2B-markaði og þá sérstaklega félög sem starfa á alþjóðavísu,“ segir Guðmundur að lokum.