Nýsköpunarfyrirtækið Treble Technologies lauk nýverið ellefu milljóna evra A-fjármögnunarlotu (e. series A), að jafnvirði 1,7 milljarða króna, með þátttöku erlendra og innlendra fjárfesta.
„Fjármagnið verður nýtt til að ráða fleira starfsfólk, efla rannsóknar- og þróunarstarf, skala upp söluteymi og sækja á nýja markaði. Meðal viðskiptavina félagsins eru stærstu tæknifyrirtæki heims,“ segir í tilkynningu.
Fjármögnunarlotan var leidd af KOMPAS VC, sem er leiðandi evrópskur vísisjóður sem sérhæfir sig í fjármögnun öflugra nýsköpunarfyrirtækja tengdum byggingar- og framleiðsluiðnaði. Aðrir fjárfestar sem tóku þátt voru vísisjóðirnir Omega ehf, Frumtak Ventures sem leiddi síðustu fjármögnunarlotu Treble, Evrópska nýsköpunarráðið auk reyndra einkafjárfesta. Jafnframt tóku Saint-Gobain og L-Acoustics, sem eru samstarfsfyrirtæki Treble, þátt í fjármögnuninni.
„Heimurinn gæti hljómað svo mun betur en hann gerir nú og það er gífurleg þörf á því að draga úr hávaðamengun. Markmið okkar hjá Treble er að bjóða upp á tólið sem gerir þessum mismunandi geirum – byggingum, bílum og tækni – kleift að hanna betri hljóðlausnir og draga úr hávaða. Það mun skila sér í bættri heilsu fólks, vellíðan og framleiðni. Lausnin okkar bætir líka upplifun fólks þegar það tengist öðrum í gegnum netið og stuðlar þannig að betri samskiptum og meiri tengingu milli fólks,“ segir Dr. Finnur Pind, stofnandi og framkvæmdastjóri Treble, í tilkynningunni.