Fyrsta jákvæða niðurstaða borgarinnar í fimm ár

Viðsnúningur varð í rekstri Reykjavíkurborgar á fyrsta helmingi ársins.
Viðsnúningur varð í rekstri Reykjavíkurborgar á fyrsta helmingi ársins. mbl.is/Ómar

Viðsnúningur varð í rekstri Reykjavíkurborgar á fyrsta helmingi ársins og var rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð í fyrsta sinn í fimm ár. 

Um 196 milljóna króna afgangur var af rekstri A-hluta Reykjavíkurborgar á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við 921 milljónar halla á sama tímabili í fyrra. Er það 1,1 milljarði króna betri niðurstaða en á sama tímabili 2023.

Árshlutareikningur borgarinnar var afgreiddur í borgarráði í dag er fram kemur í fréttatilkynningu frá borginni. 

1,8 milljarði betri niðurstaða 

Samkvæmt tilkynningunni var rekstrarniðurstaða A- og B-hluta jákvæð um 406 milljónir króna sem er 7,1 milljarði króna betri niðurstaða en fyrir sama tímabil í fyrra, en þá var halli upp á 6,7 milljarða á fyrri árshelmingi. 

Rekstrarniðurstaða A-hluta, sem er sá hluti rekstrar sem fjármagnaður er með skatttekjum, var jákvæð um 196 milljónir króna. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) var jákvæð um 5,9 milljarða króna sem var um 1,8 milljarði betri niðurstaða en fyrir ári síðan.

Rekstrartekjur voru 1,3 milljörðum króna yfir áætlun sem má einkum rekja til þess að eftirá álagt útsvar var hærra en áætlað var. Staðgreiðsla útsvars var hins vegar undir áætlun ásamt sölu eigna á tímabilinu.

Laun 790 milljónum yfir heimildum

Laun og launatengd gjöld voru 790 milljónum yfir fjárheimildum. Helstu frávik má rekja til afleysinga vegna veikinda og aukinnar mönnunar vegna stuðningsþarfa barna, einnig skýrast frávik af álagi í búsetukjörnum fatlaðs fólks.

Meðalfjölda stöðugilda stendur í stað miðað við sama tímabil í fyrra og starfa nú 8.654 hjá Reykjavíkurborg.

Þá var annar rekstrarkostnaður rúmlega 1.600. Helstu frávik er meðal annars að finna í hráefniskostnaði mötuneyta á skóla- og frístundasviði sem var um 200 milljónum yfir fjárheimildum.

Á velferðarsviði má rekja frávik meðal annars til vistgreiðslna vegna barna á vegum Barnaverndar Reykjavíkur sem voru 757 milljónum yfir fjárheimildum. Tekjur koma á móti hluta þessa kostnaðar. 

Fyrri verkefni ríkisins helstu áskoranir borgarinnar 

Segir að helstu áskoranir í rekstri Reykjavíkurborgar séu einkum vegna verkefna sem flutt hafa verið frá ríki til sveitarfélaga án þess að fullnægjandi fjármögnun fylgi.

Í desember 2023 náðist annar áfangi í samkomulagi við ríkið um breytingu á fjármögnun á þjónustu við fatlað fólk. Samkomulagið fól í sér tilfærslu skatttekna frá ríkinu til sveitarfélaga um 0,23% frá og með árinu 2024 og má samkvæmt tilkynningunni rekja  tæplega milljarð króna hækkun í staðgreiðsluútsvars milli ára til þeirrar breytingar.

„Þrátt fyrir samkomulagið glíma sveitarfélög enn við mikla vanfjármögnun vegna málaflokks fatlaðs fólks og er það eitt af megináherslum Reykjavíkurborgar í gildandi fjármálastefnu að leiðrétta fjármögnun hans.“

Náðst hefur áfangi í fjármögnun á málaflokki fatlaðs fólks þegar samið var um 0,22% hækkun á álagningarhlutfalli útsvars í árslok 2022 og síðan 0,23% hækkun í árslok 2023. Sterkar vísbendingar eru um að útgjöld til þjónustunnar haldi áfram að vaxa umtalsvert á næstu árum, enda framundan mikil uppbyggingarþörf vegna búsetuúrræða og fleiri þátta.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK