Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota og stjórnarformaður Bláa lónsins var gestur á fundi Kompanís, viðskiptaklúbbi Morgunblaðsins, í morgun. Rætt var um starfsemi Toyota, ferðaþjónustuna, stöðuna í efnahagslífinu og fleira.
Þegar talið barst að efnahagsmálum skaut Úlfar á stjórnvöld og sagði að á meðan ríkissjóður væri rekinn með halla þá væri erfitt að sjá hvernig verðbólgan geti farið niður.
„Það er stærsta vandamálið og á sama tíma þá er gerður samgöngusáttmáli með tilheyrandi kostnaði. Hver ætlar að borga fyrir þetta? Ríkið þyrfti að losna við 70-80 milljarða af vaxtagjöldum hvert ár áður en ráðist er í nýtt verkefni. Til að verðbólgan fari almennilega niður þá þarf ríkissjóður að draga úr sínum útgjöldum,“ segir Úlfar.
Hann bætir við að háir vextir séu eins og aukaskattur á alla og geri það að verkum að fólk eigi minna á milli handanna og biðji um hærri laun.
„Verkalýðsforingjarnir beina gagnrýni sinni alltaf að seðlabankanum en tala aldrei um ríkissjóð,“ segir Úlfar.