Play: „Vissum alveg hvað við vorum að gera“

Nadine Guðrún Yaghi, forstöðumaður samskipta og markaðssviðs flugfélagsins Play.
Nadine Guðrún Yaghi, forstöðumaður samskipta og markaðssviðs flugfélagsins Play. Ljósmynd/Eyþor Árnason

Nadine Guðrún Yaghi, forstöðumaður samskipta og markaðssviðs flugfélagsins Play, segir að félagið hafi alveg vitað hvað það væri að gera í nýrri auglýsingaherferð en að það hafi komið á óvart hvað ákveðinn hópur tók hana nærri sér.

Play birti í gærkvöldi tvær auglýsingar á samfélagsmiðlinum Instagram til að auglýsa tilboð á flugi.

Í fyrra mynd­skeiðinu mátti sjá fá­klædd­an og sveitt­an kven­lík­ama hoppa upp og niður en mynd­efnið var sýnt hægt.

Rétthugsunarlögreglan mætt á svæðið

Auglýsingin vakti strax nokkuð mikla athygli og einhverjir sögðu í ummælum við að hana að hún væri gamaldags og að um væri að ræða kvenfyrirlitningu.

Skömmu seinna birti Play annað keimlíkt myndband nema í þetta sinn var karlmannslíkami sem í forgrunni. Við það myndband birtist eftirfarandi texti sem greinilega vísaði í fyrri færslu: 

„Rétt­hugs­un­ar­lög­regl­an: „Þetta er kven­fyr­ir­litn­ing.“ Sam­fé­lags­miðla­stjóri: „Eh, ókei.““

Hallar jafn mikið á konur og karla

Spurð hvort að öll þessi atburðarás á samfélagsmiðlinum hafi verið úthugsuð og fyrirfram skipulögð segir Nadine:

„Við vissum alveg hvað við vorum að gera, við skulum orða það þannig. En við áttuðum okkur ekki alveg á því hvað ákveðinn hópur myndi taka þessu nærri sér því við erum ekki að sýna neinn þarna í neikvæðu ljósi.“

Spurð út í þá gagnrýni að í herferðinni birtist kvenfyrirlitning segir Nadine: „Ef það hallar á eitthvað kyn hérna þá er það að minnsta kosti á bæði karla og konur en svo finnst mér einfaldlega mjög hæpið að láta eins og einhver sé sýndur í neikvæðu ljósi, það er alls ekki svoleiðis að mínu mati.“

Þá tekur hún fram að margir séu sömuleiðis ánægðir með auglýsinguna: „Við erum að fá jafn mikið af, og líklega aðeins meira af, góðum viðbrögðum heldur en slæmum.“

Innblásin af Austin Powers

Hún segir að innblásturinn að auglýsingunni sé sena úr Austin Powers kvikmyndunum sem sjá má hér að neðan en í henni birtist risastórt reðurtákn á himni og leikur leikstjórinn sér með væntingar áhorfanda tengdum því.

Þá segir Nadine að marmiðið félagsins sé alltaf að búa til skemmtilegar auglýsingar sem vekja athygli.

„Það tókst klárlega í þessu tilfelli. Þetta hefur sannarlega vakið athygli en þetta er vissulega umdeilt.“

„Sé ekki að þetta sé neitt öðruvísi“

Hún tekur fram að henni finnst áhugavert að fylgjast með viðbrögðunum og því hvernig fólk virðist skiptast í tvær fylkingar en að í raun sé ekki um að ræða myndefni frábrugðið því sem birtist á samfélagsmiðlum dagsdaglega.

„Svona myndbirting sker sig alls ekki úr efni sem kemur fólki daglega fyrir sjónir á samfélagsmiðlum og vefmiðlunum þar sem fólk keppist við að vegsama glæsilegu líkamana sína og ég sé ekki að þetta sé neitt öðruvísi en það,“ segir Nadine.

Ekki er um að ræða fyrsta sinn sem Play vinnur með mannslíkamann í herferðum sínum en í sumar hafa hefur félagið birt myndir af fáklæddu sólbrenndu fólki á sólarströndum með yfirskriftinni „viltu far?“ og í öðrum auglýsingum hafa birst nokkuð kynferðislegar myndir af fornum styttum. 

„Það hefur ekki fengið þessi sömu viðbrögð,“ segir Nadine og bætir við: „Við höfum tekið upp á ýmsu í þessum málum og allar þessar herferðir eru misdjarfar eftir aðstæðum og markmiðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK