Þótt veðmálastarfsemi hér á landi sé sniðinn þröngur stakkur verja fáar þjóðir jafnháum fjárhæðum í veðmál og Íslendingar. Veðmálin fara fram í vaxandi mæli á erlendum veðmálasíðum. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Viðskiptaráðs sem ber heitið Veðjað á rangan hest.
Viðskiptaráð telur tímabært að hverfa frá 100 ára banni við veðmálum og leggur til að starfsleyfakerfi verði komið á fót í veðmálastarfsemi í stað sérleyfa. Með því yrði umgjörð veðmála færð nær því horfi sem er erlendis. Breytt fyrirkomulag gæti skilað 5 milljörðum króna árlega í formi viðbótarskatta.
Gunnar Úlfarsson hagfræðingur Viðskiptaráðs segir að bannstefnan hafi ekki skilað tilsettum árangri.
„Íslendingar eiga Norðurlandamet í veðmálum og verja fáar þjóðir jafn miklum fjármunum til veðmála,“ segir Gunnar og bætir við að Íslendingar veðji meira en aðrar þjóðir, þeir geri það bara á erlendum vefsíðum í stað þess að gera það innanlands.
Í úttektinni kemur fram að árið 2009 hafi sérleyfi verið algeng umgjörð í veðmálastarfsemi í Evrópu. Þá höfðu nokkur ríki ekki sett sérstök lög eða reglur um slíka starfsemi. Síðan þá hafa miklar breytingar átt sér stað og flest Evrópuríki tekið upp starfsleyfi í stað sérleyfa og með því opnað markaðinn og gert hann frjálsari. Aðeins Ísland og Noregur halda í sérleyfafyrirkomulag.
Starfsleyfi eru frábrugðin sérleyfum að því leyti að þau gera öllum sem uppfylla skilyrði þeirra kleift að sækja um leyfi og stunda veðmálarekstur. Í úttektinni segir að starfsleyfi tryggi þannig bæði jafnræði og samkeppni á milli rekstraraðila. Á sama tíma veita starfsleyfi stjórnvöldum færi á að setja veðmálastarfsemi vissar skorður, t.d. varðandi viðskiptahætti, forvarnir og skatta.
Um aldamótin fór 91% veðmála fram hjá innlendum aðilum en síðan þá hefur veðmálamarkaðurinn fimmfaldast að stærð og hlutdeild innlendra fyrirtækja á markaðnum minnkað niður í 56%. Í veðmálum á netinu er hlutfallið ennþá lægra. „Hlutfall netspilatekna sem fara í gegnum leyfishafa hérlendis er það lægsta í Evrópu. Einungis 20% netveðmála Íslendinga fara fram innan landsteinanna,“ segir Gunnar og bætir við að hlutfallið sé almennt notað sem mælikvarði á árangur stjórnvalda í að beina veðmálum á regluvæddan markað. Þá hafi ríkjum með starfsleyfi gengið mun betur að beina veðmálastarfsemi inn fyrir landamærin.
Viðskiptaráð leggur til að starfsleyfi verði tekin upp fyrir veðmálastarfsemi á Íslandi. Í því felst að allar tegundir veðmála verði heimilar leyfishöfum, bæði á netinu og á staðnum. Starfsleyfum fylgi einnig auglýsingaheimild að uppfylltum sambærilegum skilyrðum um framsetningu og tíðkast í nágrannaríkjum.
Í Danmörku mega leyfishafar auglýsa veðmál en þó ekki sem leið út úr fjárhagsvandræðum. Auglýsingarnar mega heldur ekki hvetja með beinum hætti til veðmála eða beinast sérstaklega að börnum. Þær verða einnig að innihalda upplýsingar um hvar sé hægt að leita sér aðstoðar vegna spilafíknar. Í Svíþjóð verður að beita meðalhófi í auglýsingum veðmála. Þar má heldur ekki beina auglýsingum beint að börnum eða þeim sem hafa ákveðið að hætta í veðmálum.
Samkvæmt tillögum Viðskiptaráðs yrðu vinningar hjá starfsleyfishöfum skattfrjálsir fyrir spilara, líkt og tíðkast í dag hjá sérleyfishöfum. Vinningar hjá öðrum yrðu áfram skattskyldir. Starfsleyfum myndi líka fylgja kvöð um að greiða sérstakan veðmálaskatt af spilatekjum. Nái tillögur um starfsleyfi á veðmálamarkaði fram að ganga myndi það skila 5 milljörðum króna á ári í formi viðbótarskatttekna, að sögn Gunnars.
Í úttekt Viðskiptaráðs kemur fram að á Íslandi séu engir skattar lagðir á veðmálastarfsemi. Innlendir sérleyfishafar eru almannaheillafélög og eru því undanþegnir tekjuskatti lögaðila. Erlendir rekstraraðilar greiða heldur ekki tekjuskatt hérlendis. Til viðbótar eru veðmál undanþegin virðisaukaskatti og vinningar spilara skattfrjálsir. Þetta fyrirkomulag er frábrugðið öðrum Evrópuríkjum.
Almennt tíðkast að ríki leggi bæði tekjuskatt á hagnað og einnig sérstakan veðmálaskatt á spilatekjur leyfishafa. Veðmálaskatturinn nemur til dæmis 22% í Svíþjóð og 28-35% í Danmörku. Markmið Viðskiptaráðs með tillögunum er að bæta umgjörð veðmálastarfsemi, en ekki að draga úr stuðningi við núverandi sérleyfishafa.
Gunnar segir að Viðskiptaráð leggi til aðgerð sem tryggi að núverandi sérleyfishafar, sem starfa í þágu almannaheilla, verði ekki fyrir fjárhagslegu tjóni vegna breytinganna. Þannig munu tillögurnar tryggja óbreyttan opinberan stuðning við málefni líkt og íþrótta- og háskólastarf, mannúðarmál, björgunarstörf og endurhæfingu.
„Tillögur Viðskiptaráðs myndu auka atvinnufrelsi og jafnræði, auka skatttekjur ásamt því að veita stjórnvöldum færi á að setja veðmálastarfsemi vissar reglur. Tímabært er að hverfa frá 100 ára banni við veðmálum og færa löggjöfina til samræmis við önnur Evrópuríki,“ segir Gunnar að lokum.