Í framkvæmdaáætlun samgöngusáttmálans er uppsöfnuð fjárþörf fram til 2034 allt að 43,5 milljarðar króna, að því gefnu að áætlanir standist allar. Gert er ráð fyrir lánsheimild til Betri samgangna sem verður með ríkisábyrgð til að brúa þetta bil. Sáttmálinn sem er til 2040 er aðeins formlega fjármagnaður til ársins 2029 með láni upp á 22,3 milljarða króna. Lánið er komið í 30 milljarða króna strax 2030 en um er að ræða kúlulán þar sem það má ekki hafa áhrif á framkvæmdaféð, eins og kemur fram í gögnum.
Fjármögnunarendi sáttmálans hefur ekki verið undirbúinn nógu vel, að mati Magnúsar Arnar Guðmundssonar, formanns bæjarráðs Seltjarnarnesbæjar og stjórnarmanns í Strætó.
Í skýrslu sem Vegagerðin gaf út í júní 2023 komu fram fjöldamargir þættir sem vantaði inn í áætlunina. Úr því hefur verið bætt að hluta. Þó má gera ráð fyrir að kostnaður við sáttmálann sé enn verulega vanáætlaður, t.d. vanti inn í hann uppkaup á landi, fasteignum og skaðabætur. Einnig sé kostnaður við veitukerfi mjög gróflega reiknaður.
Samkvæmt sáttmálanum fá Betri samgöngur viðbótarlánsheimild til að standa straum af uppkaupum á landi. Hvað varðar reksturinn á borgarlínunni þurfi einnig að reikna með miklum kostnaði af því að kaupa ca. 200 rafmagnsvagna þegar fram líða stundir.
Hann segir að ekki sé hægt að neita því að margt gott og þarft sé að finna í samgöngusáttmálanum. Mikilvægt sé að byggja upp góðar almenningssamgöngur til framtíðar.
„Vandinn liggur hins vegar í fjármögnuninni og hættunni á framúrkeyrslum, þetta er einfaldlega ekki hugsað til enda. En maður vonar bara að þeir stjórnmálamenn sem ætla að skrifa undir þetta fyrirvaralaust hafi að minnsta kosti kynnt sér sáttmálann í þaula,“ segir Magnús.