„Það er ekki búið að selja þetta í heild sinni en hins vegar hafa borist tilboð vegna einstakra staðsetninga. Ákveðnar einingar innan Wok on. Ég á von á því að það skýrist endanlega í næstu viku hvað verður um þetta,“ segir Einar Hugi Bjarnason, skiptastjóri hjá Wokon ehf.
Eins og fram hefur komið setti hann Wok on staðina í söluferli eftir að félagið sem var í eigu Quang Le, sem sætir rannsókn lögreglu vegna gruns um mansal, peningaþvætti og skipulagða brotastarfsemi, var úrskurðað gjaldþrota.
„Tilboðsgjafar hafa skoðun á því hvaða staðsetningar þeir telja heppilegastar. Það er alveg klárt að menn eru að meta þetta með mismunandi hætti. Þetta voru ekki bara veitingastaðir á höfuðborgarsvæðinu. Wok-on var einnig í Krónunni á Akureyri, Á Vík í Mýrdal og Hveragerði. En það eru fleiri sem hafa sýnt eignunum á höfuðborgarsvæðinu áhuga,“ segir Einar Hugi.
Í heild er um að ræða níu einingar sem eru til sölu. Þrjár voru inni í Krónu búðum. Þrjár voru í ólíkum mathöllum, í Borgartúni, í Gróðurhúsinu í Hveragerði og á Höfða. Einnig voru reknir veitingastaðir á Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði og á Smáratorgi í Kópavogi. Þá var rekstur samkvæmt sérleyfissamningi í Vík í Mýrdal.
„Það hafa borist tilboð í flestar af þessum staðsetningum. Einhverjir hafa viljað stofna nýjan rekstur á fleiri en einum stað. Einhverjir undir merkjum Wok on en fleiri sem hafa ekki hugsað sér að kaupa vörumerkið,“ segir Einar Hugi.