Fólk verði að hætta ásökunum

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra segir í samtali við ViðskiptaMoggann að allir verði að líta í eigin barm vegna efnahagsástandsins. Hann segir það ekki leysa neinn vanda að horfa í baksýnisspegilinn.

„Ég er ekki hrifinn af þeim ásakanaleik sem er uppi í þjóðfélaginu. Það skilar ekki nokkrum sköpuðum hlut. Það þurfa allir að líta í eigin barm vegna efnahagsástandsins,“ segir Sigurður Ingi.

Spurður hvort hann hafi í gegnum tíðina verið sammála ákvörðunum Seðlabankans segir Sigurður Ingi að það sé auðvelt að segja hvað hefði verið gott að gera ef horft sé í baksýnisspegilinn.

Hins vegar hafi Seðlabankinn tekið ákvarðanir byggðar á þeim gögnum sem voru fyrirliggjandi á þeim tíma.

Ekki þýði að horfa til baka

Hann segir að sem dæmi megi nefna að ef ríkisstjórnin hefði vitað að hagvöxtur árið 2022 yrði 9% en ekki 5% þá hefði hún eflaust verið grimmari í aðhaldsaðgerðum sem kynntar voru sumarið 2022.

Að sama skapi hefði Seðlabankinn sennilega hækkað vexti fyrr ef þeir hefðu séð efnahagsþróunina fyrir. Ef vinnumarkaðurinn hefði séð verðbólguna fyrir hefði hann mögulega ekki heimtað svo miklar launahækkanir. Hann segir að í ljósi þessa sé mikilvægt að breyta vinnumarkaðsmódelinu og tekur undir að hið opinbera eigi ekki að leiða launahækkanir. Ræða þurfi um staðreyndir og lausnir við vandamálum en ekki þrasa um hvað hefði átt að gera fyrir einhverju síðan.

„Það bara þýðir ekkert að ræða átti og hefði. Svona er staðan í dag. Seðlabankinn er sjálfstæður í sínum ákvörðunum. Það er algjört stílbrot á stjórnskipan að ætla að vega að því. Slíkt hefur ekki gagnast þeim ríkjum sem það hafa stundað eins og Tyrkland og Venesúela. Ég er vongóður um að lækkunarferli muni hefjast bráðum og það þýðir ekkert að ergja sig. Verðbólgan mun fara niður og við erum á réttri leið,“ segir Sigurður Ingi.

Útiloka engan

Geturðu svarað hvort þið munuð horfa til hægri eða vinstri eftir næstu kosningar?

„Svo ég tali aðeins í klisjum þá munum við ganga óbundin til kosninga og vinna með þeim flokki sem við teljum að samræmist okkar stefnu mest og tökum líka mið af því hvernig hægt sé að mynda meirihluta. Það þarf hvort tveggja að ganga upp,“ segir Sigurður Ingi.

Útilokið þið samstarf við einhvern flokk? Gætir þú setið í ríkisstjórn með Sigmundi Davíð formanni Miðflokksins?

Við í Framsókn útilokum engan. Við viljum aðeins fylgja eftir þeim stefnumálum sem við leggjum upp með og sitja í ríkisstjórn þar sem okkar sjónarmið komast að,“ segir Sigurður Ingi. Spurður hvaða málum hann vilji áorka það sem eftir er kjörtímabilsins segir Sigurður Ingi að tvær stærstu áskoranirnar séu húsnæðismálin og lánamál ríkissjóðs. Húsnæðismál séu flókin vegna þess að þrátt fyrir háa stýrivexti Seðlabanka Íslands, sem hafa haft jákvæð áhrif á flesta markaði, er byggingargeirinn áfram í fullum gír, bætir hann við.

„Við þurfum aukið húsnæði til að mæta þörfum samfélagsins. Þegar kemur að lánamálum ríkisins, þrátt fyrir að við skuldum ekki mikið sem þjóð, njótum við ekki nægilega góðra kjara á alþjóðavettvangi. Ég hef einbeitt mér að því að skoða hvernig við getum bætt fyrirsjáanleika og skilvirkni í lánamálum ríkisins og sýnt fram á styrk íslenska hagkerfisins. Það er mikilvægt að sýna fram á að hagkerfið okkar hefur breikkað og að skuldahlutföllin séu í betri stöðu en hjá öðrum þjóðum sem skulda meira en við en njóta betri kjara. Við höldum áfram að styðja atvinnustefnu sem felur í sér fjölbreyttan atvinnuveg, þar á meðal orku-, ferðaþjónustu, sjávarútveg, fiskeldi, kvikmyndagerð, hugverka- og lyfjageira, sem við fjármögnum í fjárlögum. Ég ætla mér að vinna að bættum árangri á þessum sviðum á næstu mánuðum,“ segir Sigurður Ingi.

Framboðsskortur stóra vandamálið

Fyrir nokkru kynnti ríkisstjórnin áform um byggingu 35.000 íbúða á næstu 10 árum. Engum blöðum er um það að fletta að það vantar meira framboð af húsnæði á markaðinn og vöntunin eykst ár frá ári í takt við sífellt meiri fólksfjölgun. Sigurðu Ingi segir að um þessar mundir sé vöntunin eflaust meiri eða um 40.000 íbúðir. Stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að setja fram metnaðarfull markmið og fallegar glærukynningar sem síðan koma ekki til framkvæmda.

Spurður út í þá gagnrýni segir Sigurður Ingi að mikilvægt sé að stefnumótunin sé til staðar en það sé rétt að framkvæmdin verði að fylgja.

„Ég las grein í The Economist á dögunum og í henni stóð að stefnumótunin skipti 10% máli en framkvæmdin 90% máli. Við höfum unnið þrekvirki í húsnæðismálum, ein af mörgum lagabreytingum var til dæmis að heimila lífeyrissjóðum að taka þátt í uppbyggingu á leiguíbúðum. Í svona háu stýrivaxtaumhverfi þá er ekki mikill hvati til að taka lán og byggja sem er ákveðinn jafnvægisdans sem við þurfum að stíga,“ segir Siguðrur Ingi og bætir við að það þurfi að bregðast við framboðsskortinum og auka framboð á húsnæði og hagkvæmum lóðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK