Vaxtamunurinn ekki áhyggjuefni

Andri Már Rúnarsson, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu.
Andri Már Rúnarsson, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu.

Vaxtamunurinn við útlönd er nokkuð hár á skuldabréfamarkaði og hefur farið vaxandi undanfarnar vikur og mánuði. Sé horft t.a.m. á 5 og 10 ára vaxtamun við Bandaríkin þá hefur hann aukist um 80-90 punkta frá því í júní enda hafa vaxtavæntingar í Bandaríkjunum þróast í átt að lækkandi vöxtum.

Bandaríski seðlabankinn mun birta vaxtaákvörðun sína í dag og verðleggja markaðir núna inn 25-50 punkta vaxtalækkun.

Andri Már Rúnarsson, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu, segir að hann telji vaxtamun Íslands við útlönd ekki áhyggjuefni og að það sé ekkert sem bendi til þess að vaxtamunarviðskipti muni skapa vanda á næstu misserum.

Ef þau aukast eitthvað umfram þolmörk og Seðlabankinn metur aukna þjóðhagslega áhættu af skammtímainnflæði fjármagns mun hann geta brugðist við með innflæðishöftum.

,,Við erum langt frá þeim stað í dag. Það sem vekur helst furðu í þessu sambandi er hversu lítil þátttaka erlendra fjárfesta hefur verið undanfarin misseri. Hlutfallslega er erlent eignarhald mjög lágt í samanburði við önnur þróuð ríki og hefur farið lækkandi síðan árið 2019,“ segir Andri.

Ísland áhugaverður fjárfestingakostur

Hann bætir við að helsta spurningin sé því, hvers vegna þátttaka erlendra aðila sé ekki meiri en raun ber vitni. Þá sé áhugavert að skoða lánshæfismöt ríkja og bera saman þau vaxtakjör sem fjárfestum bjóðast í hverju landi fyrir sig.

Andri segir að á þennan mælikvarða verði Ísland að teljast mjög áhugaverður fjárfestingakostur. Ef fjárfestar ætluðu að sækja svipuð vaxtakjör þyrftu þeir að teygja sig til landa eins og Suður-Afríku, Brasilíu eða Mexíkó. Allt lönd sem hafa mun lakara lánshæfismat en Ísland.

,,Hvort skýringu á lítilli þátttöku erlendra aðila megi finna í smæð markaðarins eða öðrum þáttum er erfitt að segja til um en líklega er um nokkra samverkandi þætti að ræða. Það er mikið hagsmunamál að auka aðgengi erlendra aðila að íslenska markaðnum enda er hægt að færa rök fyrir því að aukin þátttaka erlendra aðila auki skilvirkni markaðarins og seljanleika auk þess að hafa áhrif til lækkunar á vaxtastig í landinu,“ segir Andri.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK