Húsgagna- og gjafavöruverslunin Bústoð, sem fagnar 50 ára afmæli á næsta ári, opnaði nýja verslun að Miðhrauni 24 í Garðabæ í dag, fimmtudag.
Bústoð hefur verið starfrækt í Reykjanesbæ frá árinu 1975, en í tilkynningu frá versluninni segir að nýja verslunin í Garðabænum verði viðbót við núverandi starfsemi og að verslun félagsins í Reykjanesbæ muni áfram sinna viðskiptavinum á Suðurnesjunum.
Birgitta Ósk Helgadóttir, verslunarstjóri Bústoðar í Garðabæ, segist vera mjög spennt fyrir hinni nýju verslun. „Verslunin verður einstaklega falleg, opin, björt og notaleg. Um er að ræða glæsilegan 500 fermetra sýningarsal, þar sem við munum bjóða upp á allar okkar vinsælustu vörur ásamt töluvert af nýjungum,“ segir Birgitta Ósk.
Hún segir jafnframt að markmiðið með opnun nýrrar verslunar sé að bæta þjónustuna við viðskiptavini Bústoðar á höfuðborgarsvæðinu, en þar hafi verið margir traustir viðskiptavinir á undanförnum árum og áratugum.
„Bústoð er rótgróið fyrirtæki sem hefur náð góðum árangri í sölu innan sem utan Suðurnesja. Við bjóðum upp á vönduð húsgögn frá þekktum vörumerkjum sem hafa notið vinsælda hér á landi, eins og Calia Italia og skandinavískar vörur frá Skovby og Furnhouse. Við leggjum mikið upp úr góðri, persónulegri þjónustu og hóflegri álagningu alla daga ársins,“ segir Birgitta að lokum.