Í fjárlagafrumvarpinu voru þau áform kynnt að séreignasparnaðarúrræðið yrði afnumið. Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra ítrekar í viðtali við ViðskiptaMoggann sem birt var í gær að hann hafi ekki boðað breytingarnar heldur hafi þær löngu verið ákveðnar.
„Það er svo mikilvægt að skoða hvaða áhrif úrræði stjórnvalda hafa á samfélagið. Við eigum ekki að taka framtíðartekjur af börnum okkar og barnabörnum. Fólk má taka út séreignarsparnaðinn sinn 60 ára og eldra en það er skattfrelsið sem hefur verið gagnrýnt. Það er ekki sjálfsögð ráðstöfun,“ segir Sigurður Ingi.
Þú nefndir líka þegar þú kynntir fjárlögin að úrræðið hefði bara gagnast efnafólki. Hins vegar er það staðreynd að heimildin var föst krónutala og nýttist því hlutfallslega minna þeim sem höfðu hærri tekjur, þannig að það er ekki rétt. Mætti ekki færa rök fyrir því að það sé mikilvægara nú en áður að fólk geti nýtt þetta úrræði til að greiða niður húsnæðislán og létta undir í þessu háa vaxtastigi?
„Löggjöfin um fyrstu fasteign hefur verið mikilvæg og hefur veitt fyrstu kaupendum ómetanlegan stuðning. Sú heimild gildir í 10 ár og er ekki að breytast. Hins vegar er það svokölluð almenn heimild til skattfrjálsrar séreignarnýtingar sem hefur verið framlengd fjórum sinnum og er að renna út samkvæmt ákvörðun frá 2023. Í heild sinni þá hafa þessi úrræði verið mjög jákvæð breyting á húsnæðismarkaði, sem leiðir til þess að íslensk heimili skulda hlutfallslega minna en á Norðurlöndunum og vaxtabyrðin því sambærileg þrátt fyrir að vaxtastigið sé hærra hér,“ segir Sigurður Ingi og bendir á að nú hefur það verið í gildi í 10 ár, án breytinga, sem er sami gildistími og fyrir fyrstu kaupendur.
„Þó að vextir séu enn háir og greiðslubyrðin mikil er mikilvægt að við stöndum við jafnræði og tryggjum að úrræðið nýtist sem best öllum hópum. Við þurfum að taka ákvarðanir um framtíð úrræðisins og huga að áhrifum þess á samfélagið, til að tryggja að það stuðli að jafnrétti og fjárhagslegu jafnvægi. Hvað sem því líður er nauðsynlegt að endurskoða úrræðin til að forðast að draga úr sparnaði en líka tekjum komandi kynslóða,“ segir Sigurður Ingi.