Auður haslar sér völl á fyrirtækjamarkaði

Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku.
Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku. Haraldur Jónasson/Hari

Auður, sparnaðarþjónusta innan Kviku, hefur haslað sér völl á fyrirtækjamarkaði og býður fyrirtækjum nú sparnaðarreikninga sem bera hæstu vexti í samanburði við sambærilega reikninga annarra banka.

Fram til þessa hefur Auður boðið einstaklingum upp á einfalda sparnaðarreikninga á netinu með hæstu mögulegu vöxtum án binditíma en nýju reikningarnir eru ætlaðir fyrirtækjum og bera reikningarnir 8% vexti óháð innlánsupphæð, á óbundnum og óverðtryggðum sparnaðarreikningum. Það eru hæstu vextir á sambærilegum reikningum sem í boði eru á fyrirtækjamarkaðinum í dag.

Í tilkynningu segir að hinir nýju reikningar standi öllum fyrirtækjum til boða óháð því hvort þau séu í öðrum viðskiptum við Kviku og að reikningarnir beri hvorki stofngjald né færslugjöld.

Viðskiptavinir Auðar orðnir 49 þúsund

„Með tilkomu Auðar á sínum tíma breytti Kvika markaðnum fyrir sparnaðarreikninga einstaklinga og bauð allt að tvöfalt betri vexti en þekktust. Kvika jók þannig samkeppni á þessum markaði sem hafði áhrif á kjör innlána hjá öðrum bönkum til verulegra hagsbóta fyrir alla neytendur. Í dag eru einstaklingsviðskiptavinir Auðar orðnir rúmlega 49 þúsund talsins.

Nú er komið að því að útvíkka þjónustu Auðar til fyrirtækja og bjóða þeim betri kjör á sparnaðarreikningum en aðrir bjóða. Þjónustan stendur öllum til boða og hentar ekki síst litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem vilja fá bestu vextina á óbundnum innlánsreikningum óháð upphæð.

Við höfum frá upphafi Auðar lagt áherslu á að bjóða uppá einfalda og trausta sparnaðarþjónustu með litla yfirbyggingu, sem hefur leitt af sér betri kjör fyrir viðskiptavini. Við bindum því vonir við að fyrirtæki taki þessari nýjung vel,“ er haft eftir Ármanni Þorvaldssyni forstjóra Kviku.

Aukið vaxtatekjur almennings um tugi milljarða

Líkt og Ármann nefnir eru viðskiptavinir Auðar meðal einstaklinga nú yfir 49.000 en í tilkynningunni kemur jafnframt fram að staða innlána hafi rofið 100 milljarða múrinn á fimm ára afmæli Auðar síðastliðið vor. Auður veitir þjónustu einungis á netinu og segir í tilkynningunni að með því sé kostnaði haldið í lágmarki og þannig skapist svigrúm til að bjóða viðskiptavinum upp á betri innlánskjör.

Sem dæmi um jákvæð áhrif Auðar á samkeppni á íslenskum innlánamarkaði er nefnt að munurinn á innlánavöxtum og stýrivöxtum Seðlabankans hafi minnkað svo um muni eftir að Kvika hóf að bjóða upp á þjónustu Auðar og taka við innlánum á vormánuðum 2019.

„Uppsafnaður ábati almennings af hærri innlánsvöxtum vegna aukinnar samkeppni er áætlaður um 30 milljarðar króna frá stofnun Auðar,“ segir í tilkynningunni.

Sækja fjármögnun sem hentar til vaxtar

Í samtali við ViðskiptaMoggann segir Ármann að frá upphafi hafi verið lagt upp með að bjóða fyrirtækjum sparnaðarinnlán og að eftir þeim hafi verið kallað, en nú sé rétti tíminn.

„Til þess að stækka þurfum við hvort tveggja að vaxa á útlánahliðinni og á fjármögnunarhliðinni, sem kallar á aukna fjölbreytni í fjármögnun. Með sölunni á TM fáum við eigið fé sem að hluta verður nýtt til þess að vaxa og það að bjóða fyrirtækjainnlán er hluti af þeirri vegferð, ásamt því að halda áfram að vaxa í einstaklingsinnlánum og útgáfu á skuldabréfum.

Við erum því allt í senn að auka samkeppni, svara þörfum viðskiptavina og sækja fjármögnun sem hentar okkur til þess að stækka og skila ávöxtun til hluthafa okkar,“ segir Ármann en ítarlegra viðtal við hann verður í Morgunblaðinu á morgun, fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK