Risarnir fjárfesta en til þess þurfa þeir orku

Samtök atvinnulífsins héldu ársfund á dögunum, áherslan var orka.
Samtök atvinnulífsins héldu ársfund á dögunum, áherslan var orka.

Tilkynnt var á dögunum að BlackRock fjárfestingafélagið, tæknirisinn Microsoft ásamt Nvidia, leiðandi félag í gervigreind, hafi gert samkomulag um að safna 30 milljörðum USD til að reisa gagnaver fyrir gervigreind. Þetta er einungis byrjunin því stefnt er að 100 milljarða USD fjárfestingu.

Orkan sem þarf til að keyra gagnavinnslu af þessari stærðargráðu er mikil, því er tilkynnt sérstaklega að félögin muni fjárfesta í aðgengi að orku, ásamt því að finna nýjar leiðir til að nýta orku betur.

Það sem vekur athygli er markmiðasetning fyrirtækjanna og kröfurnar um orku í slíkri fjárfestingu. Á sama tíma og Íslendingar eru í vandræðum með orku, þar sem orkuskortur er þegar fyrir hendi og sumir vilja helst skera niður í virkjunarframkvæmdum þvert á þjóðarvilja, er verið að blása til sóknar í öðrum löndum. Skýrt samhengi er milli orkuframleiðslu og lífsgæða.

Á ársfundi Samtaka atvinnulífsins á dögunum kom fram að vindorkuver í Kína framleiddu meira en 100 TWs í mars mánuði á þessu ári. Til samanburðar er heildarraforkuframleiðsla á Íslandi um 20 TWs á ári og spá Landsnets um orkuþörf til ársins 2050 auka 22 TWs. Inni í því er það sem kallast full orkuskipti.

Það virðist eitthvert rof í hugmyndum um þá orku sem tekst að beisla í okkar landi og hvað heimurinn er að gera. Fjárfestingar Kína í grænni orku fá ekki sömu athygli og kolaverin þeirra. Alls eru um sjö þúsund vindmyllur í Kína. Þeir eru einfaldlega leiðandi í framleiðslu endurnýjanlegrar orku á heimsvísu, bæði hvað viðkemur vindmyllum og sólarorku.

Ísland getur gert mun betur í þessum efnum. Við erum sannarlega að nýta náttúruna rétt með jarðvarma en þurfum að leyfa mun meiri orkuöflun. Í samhengi við gagnaverin fyrir gervigreindina mætti færa rök fyrir því að þau ættu að vera byggð hér á landi. Nægt er landrýmið og kuldinn hjálpar eflaust við keyrslu veranna.

Staðreyndin er hins vegar sú að við erum engan veginn í stakk búin fyrir slíkar fjárfestingar á Íslandi þegar við gerum lítið annað en að stoppa virkjunarframvæmdir og einblína á skömmtun, auk þess sem það litla sem má virkja skilar of litlu.

Það kom eflaust aldrei til tals að reisa gagnaverin á Íslandi, samt erum við eins og stjórnmálamennirnir segja; best í heimi. Tölurnar segja því miður annað.

Hættum að leyfa einu minnsta mælanlega stjórnmálaafli landsins að stýra þjóðinni og framtíð hennar.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK