Netöryggisfyrirtækið Keystrike lauk nýlega nýrri fjármögnunarlotu og sótti sér um tvær milljónir dala, eða sem nemur um 265 milljónum króna. Í viðskiptunum er félagið metið á um 15 milljónir dala, eða 2,1 milljarð. Bæði núverandi fjárfestar auk nýrra einkafjárfesta á Íslandi og í Bretlandi leiddu fjármögnunina.
mbl.is fjallaði ítarlega um lausn Keystrike í fyrra, en um er að ræða nýja og sérstæða nálgun á tölvuöryggi. Nokkrir reynsluboltar í netöryggismálum komu að stofnun Keystrike. Þar ber að nefna dr. Ýmir Vigfússon, einn af stofnendum tölvuöryggisfyrirtækisins Syndis og Adversary og undanfarið dósent við Emory háskólann í Georgíu í Bandaríkjunum.
Auk hans eru stofnendurnir þeir Valdimar Óskarsson, forstjóri Keystrike og fyrrverandi forstjóri Syndis, Árni S. Pétursson, fyrrverandi yfirmaður viðskiptaþróunar og markaðsmála hjá Betware, Steindór Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Adversary og þróunarstjóri hjá Betware og Árni Þór Árnason, fyrrverandi rekstrarstjóri AwareGO.
Fyrir ári síðan var fyrirtækið að ljúka þriðju fjármögnunarlotu sinni. Í þeirri fjármögnun var verðmat fyrirtækisins komið upp í 10 milljónir dala, eða um 1,4 milljarða íslenskra króna, en þá hafði netöryggislausn Keystrike ekki enn verið gefin út.
Með fjármögnuninni núna er því verið að miða við 50% hærra verðmat, eða 2,1 milljarð króna. Valdimar segir í samtali við mbl.is að rúmlega helmingur þeirrar fjármögnunar komi frá nýjum fjárfestum, en eldri fjárfestar og stofnendur setji einnig fjármuni í félagið.
Samtals eru hluthafar í dag 34, en þar af eiga stofnendurnir í dag rúmlega 63% í fyrirtækinu.
Lausn Keystrike er þegar komin í notkun hjá þó nokkrum viðskiptavinum. Valdimar nefnir að þar á meðal séu framleiðslu og innviðafyrirtæki á Íslandi og þá séu önnur fyrirtæki annað hvort að skoða ítarlega að innleiða lausnina eða komin af stað í þeirri vegferð. Þar á meðal eru bankar bæði hér á landi og heilbrigðisfyrirtæki og hótelkeðjur erlendis.
Valdimar segir að núverandi lausn Keystrike sé ekki skýjalausn og að aðallega sé horft til þess að verja nokkra starfsmenn sem hafi aðgang að mikilvægum upplýsingum eða stýribúnaði. Hins vegar sé komin upp tilraunaútgáfa af skýjalausn fyrirtækisins og gert ráð fyrir að hún komi að fullu út um mitt næsta ár. Þá segir hann að hægt verði að fara í alhliða vörn fyrir alla starfsmenn fyrirtækja og að auðveldara verði að skala upp lausnina.
Til að gera langa sögu stutta gengur hugmyndin og í dag lausn fyrirtækisins út á að votta að innsláttur hafi átt sér stað frá vinnustöð notenda. Það þýðir í raun að hugbúnaðurinn vottar að það hafi verið manneskja á bak við lyklaborðið sem framkvæmir þær skipanir sem eru sendar áfram t.d. inn á tölvukerfi fyrirtækja eða stofnana, eða í gegnum fjarvinnslukerfi. Valdimar tekur fram að þetta staðfesti ekki hvaða manneskja hafi verið að slá inn skipanirnar, en að þær komi frá ákveðinni vél.
En hvaða máli skiptir þetta umfram þær öryggislausnir sem eru í boði í dag? Valdimar segir að með þessu sé í raun verið að koma í veg fyrir nokkrar ef ekki flestar af helstu innbrotaleiðum sem tölvuþrjótar noti í dag eða nái allavega að draga verulega úr áhrifum þeirra, meðal annars þegar kemur að svokölluðum einbeittum tölvuárásum (e. spear phishing).
Fyrirtækið er nú með 17 starfsmenn og hefur fjölgað úr 11 starfsmönnum í fyrra. Þar á meðal hafa þeir ráðið sérhæfðan sölu- og markaðsmann í netöryggismálum í San Francisco í Bandaríkjunum. Auk hans eru starfsmenn í Noregi, Frakklandi og Dubai, en stærsti hluti starfsmannanna er hér á landi.
Nota á fjármögnunina núna til að hefja erlenda markaðssókn af fullum þunga. Valdimar útilokar ekki að farið verði í frekari fjármögnun á komandi mánuðum til að styðja enn frekar við þá sókn og vöxt fyrirtækisins.