Félagsbústaðir hækka leigu umfram verðlag

Félagsbústaðir eru til húsa á Hallveigarstíg 1 í Reykjavík.
Félagsbústaðir eru til húsa á Hallveigarstíg 1 í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Félagsbústaðir hyggjast hækka leigu umfram verðlag á næsta ári, að því er fram kemur í nýbirtri fjárhagsáætlun félagsins vegna ársins 2025.

Í áætluninni er gert ráð fyrir að leigutekjur aukist um 8,8% milli ára, sem skiptist á milli 3,2% hækkunar vegna verðlagsbreytinga og um 5,3% vegna magnaukningar.

Magnaukningin tekur hvort tveggja til stækkunar eignasafns Félagsbústaðar og fyrrgreindrar fyrirhugaðrar hækkunar á leigu umfram verðlag á næsta ári.

Ekki kemur fram hversu mikið umfram verðlag gert er ráð fyrir að leiga hækki.

Fjárhagslega sjálfbær samkvæmt áætlun

Gert er ráð fyrir að Félagsbústaðir verði fjárhagslega sjálfbærir á árunum 2024-2029, en markmið um fjárhagslega sjálfbærni náðust ekki á síðasta ári. 

Í fjárhagslegri sjálfbærni felst að veltufé frá rekstri standi undir afborgunum langtímalána.

Rekstrarniðurstaða vegna ársins 2024 er jákvæð um 4,4 milljarða króna samkvæmt útgönguspá og í áætlun er gert ráð fyrir að hún verði jákvæð um 7,2 milljarða árið 2025. Langtíma áætlun gerir ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu út spátímann sem nær til ársins 2029.

Áætlað er að fjárfestingarkostnaður ársins 2025 nemi tæpum 6 milljörðum og að hann verði fjármagnaður að um 31% hluta með stofnframlögum frá borginni en að öðru leyti með lánsfé.

Hækkunarþörf leiguverðs töluverð

Félagsbústaðir eru óhagnaðardrifið leigufélag í eigu Reykjavíkurborgar og sinnir félagið lögbundnu verkefni á sviði húsnæðismála borgarinnar.

Í skýrslu stjórnar með ársreikningi síðasta árs kemur fram að Félagsbústaðir hafi fengið óháða sérfræðingar til þess að leggja mat á rekstrar- og fjárfestingagetu félagsins til næstu ára með hliðsjón af núverandi skuldbindingum og viðhalds- og uppbyggingaráætlunum eignasafnsins.

Niðurstaðan leiddi í ljós að tekjur þyrftu að aukast umtalsvert umfram almennar verðlagshækkanir til að unnt væri að ná sjálfbærniviðmiðum.

Hækkunarþörf var á þeim tíma metin 6,5% en ekki liggur fyrir hver hún er í dag.

Deilt um hvort borgin hafi hafnað hækkun

Í fjárhagsáætlun félagsins fyrir árið 2024 sem birt var um þetta leyti á síðasta ári, var gert ráð fyrir að leiga myndi hækka umfram verðlag.

Í skýrslu stjórnar með ársreikningi síðasta árs kom fram að við endurskoðun leigugrunns hafi stjórn Félagsbústaða lagt til 1,1% hækkun á leiguverði en tillagan ekki fengið brautargengi í velferðarráði borgarinnar.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar mótmælti því í tilkynningu og sagði slíka tillögu ekki hafa verið lagða fyrir velferðarráð. Stjórn Félagsbústaða hefur ekki skýrt mál sitt nánar, í það minnsta ekki opinberlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK