Landsréttur hefur sýknað Samkeppniseftirlitið (SKE) af kröfu Samskipa um að úrskurður áfrýjunarnefndar SKE um að vísa frá kæru Samskipa yrði ógiltur.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef SKE.
Eimskip gerði sátt við SKE 16. júní 2021 þar sem félagið gekkst við því að hafa átt í samráði við Samskip, greiddi sektir og skuldbatt sig til þess að hætta öllu viðskiptalegu samstarfi við Samskip.
Samskip kærði sáttina til áfrýjunarnefndar SKE og krafðist þess að umrædd skilyrði um að skipafélögin hættu viðskiptalegu sambandi yrðu felld úr gildi.
Áfrýjunarnefndin vísaði málinu frá og Samskip stefndu því SKE fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. Héraðsdómur snéri við niðurstöðu áfrýjunarnefndar og bað áfrýjunarnefnd um að taka málið upp.
Samkeppniseftirlitið áfrýjaði þeim úrskurði til Landsréttar sem hefur nú komist að sömu niðurstöðu og áfrýjunarnefnd upphaflega.
„Í dómi Landsréttar í dag kemur hins vegar fram að sáttin hafi verið skuldbindandi fyrir Eimskip en ekki Samskip. Í hlutarins eðli liggi að sáttin hafi verið til þess fallin að takmarka samstarf fyrirtækjanna sem hafi sætt rannsókn Samkeppniseftirlitsins. Í þessu sambandi er tekið fram að Samkeppniseftirlitið og það fyrirtæki sem geri sátt verði að geta treyst því að með gerð sáttar sé máli fyrirtækisins lokið,“ segir í tilkynningu SKE sem heldur áfram:
„Aðili að samráðsmáli, sem sé til rannsóknar, og hafi ekki viðurkennt brot geti ekki talist aðili að sátt þess aðila sem hafi viðurkennt brot og undirgengist greiðslu sektar. Meðal annars með vísan til þessa voru Samskip ekki talin hafa sýnt fram á að fyrirtækið hefði lögvarða hagsmuni af úrlausn um hvaða skuldbindingu Eimskip hefði gengist undir gagnvart Samkeppniseftirlitinu með sáttinni.“