Spá að fasteignaverð muni lækka að raunvirði

Arion greining spáir því að fasteignaverð muni lækka að raunvirði …
Arion greining spáir því að fasteignaverð muni lækka að raunvirði á komandi mánuðum og misserum. Ástæðuna fyrir því segir Erna vera hversu mikið búið sé að herða lánaskilyrðin. mbl.is

Arion greining spáir því hagvöxtur taki við sér á ný eftir samdrátt á fyrri hluta ársins. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri hagspá bankans fyrir árin 2024-2027 og ber heitið: Haustlægð yfir hagkerfinu: Djúp og köld, eða grunn og mild?

Í hagspánni segir að krefjandi tímar séu fram undan og að næstu misseri muni vafalaust reyna á þolrifin.

Útlit er fyrir að heimilin haldi áfram að rifa seglin og einkaneysla á mann dragist saman. Því til viðbótar á ferðaþjónustan á brattann að sækja en á móti vega bjartar horfur í öðrum „óhefðbundnari“ útflutningsgreinum, s.s. eldi og lyfjaiðnaði, segir í hagspánni. Bankinn spáir því að hagvöxturinn fari hægt af stað og verði um 1,5% á næsta ári.

Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, segir að í ljósi þess að spár geri ráð fyrir tiltölulega litlum hagvexti á næsta ári þá gæti skuldahlutfall ríkisins farið hækkandi.

„Þegar ríkissjóður birtir þetta hlutfall þá er það byggt á spá Hagstofunnar um hagvöxt. Það er ekki ólíklegt miðað við stöðuna í pólitíkinni að það verði meiri útgjaldavöxtur og skuldasöfnun. Við eigum líka eftir að sjá hvernig fjárlagafrumvarpið fer í meðferð þingsins,“ segir Erna.

Hún segir að ástæðurnar fyrir svartsýnni hagvaxtarhorfum á næsta ári skýrist fyrst og fremst af breytingum í umhverfi einkaneyslunnar, hertum lánaskilyrðum og breytingum á verðtryggðum fasteignalánum.

„Hærri afborganir geta haft áhrif á bæði neysluna og einnig áhrif á fasteignamarkaðinn. Auðvitað munu vaxtalækkanir þegar þær hefjast hafa mikil áhrif á væntingar. Við teljum þó að lánþegaskilyrðin hafi takmarkandi áhrif á hversu hratt fasteignaverð getur hækkað,“ segir Erna. Enginn veit hvert einkaneyslan fer Erna segir að erfitt sé að átta sig á þróun einkaneyslunnar um þessar mundir.

„Maður veit varla hver einkaneyslan er þar sem það koma misvísandi skilaboð víða. Kortaveltutölurnar eru þó mun áreiðanlegri nú. Við höfum byggt upp okkar eigin hagvísi um þessar tölur en það er snúið að átta sig á í hvaða átt hagkerfið er að fara miðað við tölurnar,“ segir Erna.

Erna bendir á að þó að staða ákveðinna hópa sé mjög slæm hafi innlán aukist um 160 milljarða það sem af er ári en það jafngildi um 14% af einkaneyslu á fyrri hluta ársins.

„Þetta eru svakalegar tölur og fjármagn sem liggur á hliðarlínunni gæti komið inn í neysluna þegar heimilin ganga á þennan sparnað. Við erum hófstemmd á okkar sýn því einkaneysla á mann dregst saman fram á mitt spátímabilið,“ segir Erna.

Þungur vetur fram undan

Arion greining spáir því að fasteignaverð muni lækka að raunvirði á komandi mánuðum og misserum. Ástæðuna fyrir því segir Erna vera hversu mikið búið sé að herða lánaskilyrðin.

„Þetta er breyttur veruleiki sem einkaneyslan er í. Við færðum líka niður spá okkar fyrir ferðaþjónustuna. Staðan er þannig að reksturinn hefur verið þungur hjá íslensku flugfélögunum og farþegasamsetning hefur verið að breytast. Fleiri tengifarþegar hafa verið að koma á kostnað þeirra sem koma til landsins,“ segir Erna en bætir við að það þýði ekki að Ísland sé að endilega að detta úr tísku líkt og hefur verið í umræðunni.

„Þetta verður þó þungur vetur og við gætum séð hækkandi atvinnuleysi, minni einkaneyslu og að það muni draga úr hagvextinum,“ segir Erna.

Staða ákveðinna hópa fer versnandi

Erna segir að það sjáist ekki í opinberum tölum að vanskil séu að aukast verulega.

„Við sjáum í tölum frá bankanum og í tölum frá Creditinfo að einstaklingum á vanskilaskrá hefur ekki fjölgað mikið en leitnin er hins vegar til verri vegar. Verðbólga er búin að vera mikil og vextir háir. Heimilin hafa aftur á móti púða til að falla á. Eiginfjárstaða þeirra er góð og þau eiga mikið af innlánum,“ segir Erna en bætir við að staða hópa sé misjöfn.

„Staðan er einkum þung hjá unga fólkinu sem er nýkomið inn á markaðinn. Sérstaklega í ljósi þess að lánaskilyrði eru að versna og ekki er hægt að treysta á eignamyndun í gegnum fasteignaverð,“ segir Erna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK