Dómsmálaráðherra hefur birt drög að frumvarpi um vefverslun með áfengi í samráðsgátt stjórnvalda. Lagðar eru til breytingar á áfengislögum þannig að heimilt verði að starfrækja innlenda vefverslun með áfengi í smásölu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á áfengislögum, auk breytinga á lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Frumvarpið er samið á vegum dómsmálaráðuneytisins. Sambærilegt frumvarp var birt í samráðsgátt árið 2020 og áform þar að lútandi á árinu 2019.
Þetta kemur fram á vef ráðuneytisins.
„Frumvarpið felur í sér að heimilað verði að starfrækja vefverslun með áfengi í smásölu til neytenda, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum laganna. Um er að ræða breytingu á umfangi einkaleyfis Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis til neytenda, sbr. 10. gr. áfengislaga, nr. 75/1998, og 1. mgr. 7. gr. laga um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011.
Í gildandi lögum eru ekki settar skorður á heimildir einstaklinga til þess að flytja inn áfengi erlendis frá, t.d. í gegnum vefverslanir, og hefur því slík verslun viðgengist um áratugaskeið á Íslandi.
Aftur á móti gerir löggjöfin ekki ráð fyrir að heimilt sé að starfrækja sambærilegar innlendar vefverslanir vegna þess einkaleyfisfyrirkomulags sem til staðar er. Þrátt fyrir það er starfræktur fjöldi innlendra vefverslana, ýmist í eigu innlendra eða erlendra lögaðila,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir, að með frumvarpinu sé stefnt að því að heimila sölu áfengis í gegnum innlenda vefverslun og marka fyrirkomulaginu lagalegan ramma, svo sem um hvernig staðið sé að leyfisveitingu, hvernig eftirliti skuli háttað og um sölu og afhendingu áfengis sem keypt sé.
Þá er stefnt að því að sama fyrirkomulag muni gilda um afhendingu áfengis sem flutt er inn af einstaklingum og eftir atvikum er keypt í erlendum vefverslunum.