Frá og með 1. nóvember nk. mun Skyggnir eignarhaldsfélag taka til starfa. Þar með flyst starfsemi Origo sem snýr að rekstrarþjónustu, innviðum og hugbúnaði í aðskilið dótturfélag, Origo ehf. Tilgangur Origo er sá sami og hingað til, að skapa betri tækni sem bætir lífið og hjálpar fyrirtækjum og stofnunum að ná betri árangri með tækninni.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Origo. Þar segir einnig að breytingin muni skerpa á hlutverki Origo og efla þjónustu gagnvart viðskiptavinum.
Síðan árið 2018 hefur vörumerki Origo gegnt tveimur hlutverkum samkvæmt tilkynningunni. Annars vegar sem móðurfélag fjölda dótturfélaga og hinsvegar sem rekstrarfélag með fjölbreytt framboð á sviði upplýsingatækni.
„Tilgangurinn með skipulagsbreytingunni er að skilja að starfsemi eignarhaldsfélags og rekstrar. Annars vegar er breytingin gerð til að skapa meiri fókus á vöruþróun og afhendingu lausna og þjónustu hjá Origo. Hins vegar, til að skilgreina betur hlutverk eignarhaldsfélagsins gagnvart rekstrarfélögum sínum, samstarfsaðilum og fjárfestum," segir í tilkynningunni.
Ari Daníelsson forstjóri Origo segir að breytingin marki tímamót fyrir Origo og öll rekstrarfélög í eigu Skyggnis. „Með nýju skipulagi náum við að skerpa betur á hlutverki Origo og hafa rekstur og þjónustu þar í forgrunni. Við einsetjum okkur að vera traustur samstarfsaðili fyrirtækja og stofnana og að skapa framúrskarandi tæknilausnir sem hjálpa viðskiptavinum okkar að ná árangri,“ segir Ari í tilkynningunni.
Skyggnir fer með eignarhluti í 14 rekstrarfélögum á sviði upplýsingatækni og hefur það hlutverk að koma auga á tækifæri og styðja fyrirtæki í eignasafni sínu til árangurs. „Sjálfstæð rekstrarfélög í eigu Skyggnis, þar sem Origo ehf. er stærst, einbeita sér þannig að viðskiptavinum sínum, vörum og rekstri,“ segir Ari að lokum.