Ásgeir: Margt hefur breyst en vextir „helvíti háir“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri,
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér fannst ansi mikið hafa breyst. Og þegar þú ert með 9,25% stýrivexti þá ertu með ansi mikið aðhald. Getum við ekki verið sammála um það að það eru helvíti háir vextir?“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundi sem Seðlabanki Íslands hélt í morgun þar sem farið var yfir ákvörðun peningastefnunefndar bankans með blaðamönnum og greinendum í fjármálakerfinu. 

„Það gefur færi á því að taka varfærin skref sem ættu ekki endilega að þýða mikla áhættu,“ bætti Ásgeir við. 

Eins og fram hefur komið, þá ákvað pen­inga­stefnu­nefnd SÍ að lækka stýri­vexti bank­ans um 0,25 pró­sentu­stig. Þetta er í fyrsta sinn síðan í nóv­em­ber árið 2020 sem Seðlabank­inn lækk­ar vext­ina.

Fá vonandi mjúka lendingu

Ásgeir sagði á fundinum, að allir mælikvarðar, nema kannski kreditkortavelta heimilanna, bentu til þess að staðan væri að þróast í rétta átt. 

„Það bendir allt til þess að verðbólga verði mögulega lægri fram að áramótum heldur en við höfðum gert ráð fyrir í síðustu spám. Ég held að það sé nokkuð ljóst,“ sagði Ásgeir.

Vandræði að reka peningastefnu á Íslandi

„Við teljum ansi margt hafa breyst. Við teljum að þetta sé að ganga í rétta átt, að við getum þó farið að slaka aðhaldinu niður. Vonandi fáum við þá mjúka lendingu. Vonandi er þetta að fara leggjast með okkur,“ sagði Ásgeir og bætti við að ef þróunin verði á annan veg þá muni bankinn bregðast við þeirri stöðu. 

„Við erum að sjá ýmsa undirliði verðbólgunnar þróast í rétta átt sem lætur okkur líða betur. Auðvitað er þetta vandræði. Náttúrulega vandræði við að reka peningastefnu í þessu landi er hvað verðbólguvæntingar eru háar og hvað eins og launahækkanir fara hratt út í kerfið,“ sagði Ásgeir en bætti við að nú voni menn að staðan sé að breytast til batnaðar.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK