Aukin sókn heimila og hluta fyrirtækja í verðtryggð lán er tiltekið áhyggjuefni enda
verður lækkun lánastabbans hægari alla jafna eftir því sem stærri hluti hans ber verðtryggðan höfuðstól.
Þetta segir Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka í
samtali við ViðskiptaMoggann. Fjallað er um Fjármálastöðugleikarit Seðlabankans í blaði dagsins.
„Skuldastaða heimila hefur góðu heilli lækkað áfram undanfarin misseri, t.a.m. í hlutfalli
við landsframleiðslu og ráðstöfunartekjur heimila. Þá eru skuldir fyrirtækja enn tiltölulega
hóflegar þótt þær hafi þokast upp sem hlutfall af landsframleiðslu,“ segir Jón Bjarki.
Í Fjármálastöðugleika kemur fram að þyngri greiðslubyrði óverðtryggðra íbúðalána hefur
leitt til þess að ásókn heimila í verðtryggð íbúðalán hefur aukist.
Að fjárhæð lána óbreyttri er greiðslubyrði verðtryggðra lána léttari en óverðtryggðra lána í upphafi lánstíma. Jafnframt segir að líkt og heimilin hafi fyrirtækin sótt í auknum mæli í verðtryggð lán.
„Hefur sú þróun átt sér stað frá miðju síðasta ári. Tæplega 42% af hreinum nýjum útlánum til fyrirtækja voru í formi verðtryggðra lána á fyrstu sjö mánuðum ársins og um 20%
í formi óverðtryggðra lána. Er það töluverð breyting frá sama tímabili í fyrra þegar 21%
af hreinum nýjum útlánum voru verðtryggð og 47% óverðtryggð,“ segir í Fjármálastöðugleika.
Meira í ViðskiptaMogganum í dag.