Hátt í 700 milljarða tap fyrir hagkerfið á dag

Verkfallið hófst á þriðjudag og er óljóst hvenær því lýkur.
Verkfallið hófst á þriðjudag og er óljóst hvenær því lýkur. AFP/Bryan Smith

Í fyrsta sinn í tæplega 50 ár eru hafnarstarfsmenn í Bandaríkjunum í verkfalli. Krafist er verulegra launahækkana en verkfallið getur kostað bandaríska hagkerfið hátt í 5 milljarða dala á dag, eða um 700 milljarða króna.

Time Magazine greinir frá.

Aðeins rúmlega mánuður er þar til forsetakosningar í Bandaríkjunum verða haldnar og er óljóst hvort efnahagslegar afleiðingar verkfallsins muni hafa áhrif á stjórnmálaástandið.

Vilja 77% launahækkun

Um 36 umskipunarhafnir í Bandaríkjunum eru nánast óstarfhæfar eftir að verkfall stéttarfélags hafnarstarfsmanna (ILA) hófst á þriðjudag.

Stéttarfélagið krefst þess að laun starfsmanna hækki um 77% á sex ára tímabili. Var þeim boðin 50% launahækkun á sama tímabili en stéttarfélagið hafnaði boðinu. Þá vill stéttarfélagið einnig koma í veg fyrir frekari sjálfvirknivæðingu.

Félagsmenn í stéttarfélaginu eru um 45 þúsund og eru með 39 dollara á tímann í grunnlaun, eða hátt í 5.500 krónur í tímalaun. Vilja þeir að launin fari upp í 69 dollara á tímann, eða hátt í 9.700 krónur á tímann, að er kemur fram í frétt dagblaðsins Wall Street Journal.

Verkfallið getur haft veruleg áhrif á bandaríska hagkerfið.
Verkfallið getur haft veruleg áhrif á bandaríska hagkerfið. AFP/Bryan Smith

Efnahagslegt tap hleypur á milljörðum dollara á dag

Hafnirnar sem um ræðir anna allt að 50% af öllum vöruviðskiptum í og út úr landinu og sem dæmi má nefna að ekki er hægt að flytja bíla inn né út úr landinu á meðan á verkfallinu stendur. Verkfallið hefur þó hvorki bein áhrif á olíuútflutning né flutning hergagna.

Hversu mikil áhrif verkfallið hefur fer eftir því hversu lengi það varir. Efnahagslegt tap vegna verkfallsins mun nema 3,8 til 4,5 milljörðum dollara á dag, samkvæmt JPMorgan Chase & Co. Landssamband framleiðenda segir að landsframleiðsla geti minnkað um fimm milljarða dollara á dag, eða um 700 milljarða króna.

Það tekur um það bil mánuð að koma á eðlilegri skipaumferð vegna vikulangs verkfalls, að mati Grace Zwemmer hjá Oxford Economics.

Forsetinn vill ekki grípa inn í

„Við erum reiðubúin að berjast eins lengi og þörf krefur, að vera í verkfalli í þann tíma sem það tekur,“ sagði verkalýðsforinginn Harold Daggett í yfirlýsingu sem hann sendi á Facebook.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur státað af því að styðja við stéttarfélög. Hann getur stöðvað verkfallið á meðan viðræður standa yfir en hann hefur gefið það út að hann hafi ekki hug á því.

„Það væri óviðunandi að leyfa samningsdeilum að valda efnahagslífinu slíku áfalli,“ skrifaði Suzanne Clark, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Bandaríkjanna, í bréfi til Bidens á mánudag.

„Taft-Hartley myndi gefa báðum samningsaðilum tíma til að ná samkomulagi um nýjan kjarasamning,“ hélt Clark áfram og vísaði til laga sem Bandaríkjaþing samþykkti árið 1947 sem heimila forseta að grípa inn í deilur á vinnumarkaði sem varða þjóðaröryggi.

Biden kveðst ekki vilja grípa inn í þar sem um …
Biden kveðst ekki vilja grípa inn í þar sem um kjaraviðræður sé að ræða. AFP/Saul Loeb
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK