„Öðruvísi orka að vera á eyju“

Gabríel Ingimarsson
Gabríel Ingimarsson Ljósmynd/Aðsend

Gabríel Ingimarsson hefur tekið við stöðu rekstrarstjóra Hríseyjarbúðarinnar. Snýr hann þar með aftur í heimabyggð eftir nokkurra ára fjarveru með viðkomu í Reykjavík, Laugum í Reykjadal og Brussel.

Gabríel kemur til Hríseyjarbúðarinnar frá Össuri þar sem hann starfaði sem sérfræðingur í fjármáladeild í þrjú ár, að því er segir í tilkynningu.

Átti að gerast

„Ég var nýbúinn að segja upp í vinnunni og var að selja íbúðina sem ég bjó í þegar ég sá þetta auglýst. Það var eins og þetta hafi átt að gerast,“ segir Gabríel í samtali við mbl.is, spurður út í nýja starfið.

Hann bætir við að það sé ekkert sjálfsagt að flytja aftur í svona lítið samfélag og fá starf við sitt hæfi.

Hann er með BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands með áherslu á fjármál. Sem rekstrarstjóri mun Gabríel leggja áherslu á að bæta rekstrargrundvöll verslunarinnar með auknum viðskiptum við eyjaskeggja og með breiðara vöruúrvali svo verslunin geti sinnt öllum helstu nauðsynjakaupum Hríseyinga, að því kemur fram í tilkynningunni.

Hrísey.
Hrísey. Ljósmynd/r/Markaðsstofa Norðurlands

Mikilvæg fyrir samfélagið

Spurður segir hann Hríseyjarbúð vera mikilvæga fyrir samfélagið, sérstaklega yfir vetrartímann þegar ferðamönnum fækkar. Þá sé hún mikill samkomustaður, fólk hittist til að fá sér kaffi og ræða málin.

Er gott að búa í Hrísey?

„Já, ég er ekki hlutlaus aðili í þessum málum en ég veit eiginlega ekki fallegri stað,“ svarar Gabríel.

„Það fylgir því öðruvísi orka að vera á eyju, það skapast öðruvísi stemming,“ bætir hann við. „Þarna er mikil kyrrð og það myndast ákveðinn innri friður.“

Hríseyjarbúðin var stofnuð árið 2015 af fólki í eyjunni og hugsuð sem samfélagslegt verkefni. Í dag eru hluthafar í búðinni 79 talsins. Verslunin er opin allt árið og er þar einnig rekin afgreiðsla fyrir Póstinn, mannlegur hraðbanki, afhendingarstöð fyrir Vínbúðina og sjálfsafgreiðsluverslun utan opnunartíma.

Mikill uppgangur

„Það er gríðarlega verðmætt að fá tækifæri að snúa aftur í Hrísey og taka við rekstri verslunarinnar. Það hefur verið mikill uppgangur í Hrísey og ég er ánægður að geta tekið þátt í og stuðlað að því, í litlu samfélagi munar um allt og ég er spenntur að leggja mitt lóð á vogarskálarnar," er haft eftir Gabríel í tilkynningunni.

,,Það eru mörg spennandi tækifæri í rekstri Hríseyjarbúðarinnar til að bæta þjónustu við íbúa jafnt sem sumarhúsaeigendur og ferðamenn. Rekstri sjálfstæðra verslana á landsbyggðum Íslands fylgja einstakar áskoranir en tækifærin eru alveg jafn einstök og huga þarf sérstaklega að því að auka og tryggja rekstrarstoðir Hríseyjarbúðarinnar til lengri tíma,” bætir hann við í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK