Aðkoma ríkisins óheillaþróun

Stjórnarráðið í Lækjargötu.
Stjórnarráðið í Lækjargötu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðskiptaráð leggur til níu hagræðingartillögur sem myndu bæta afkomu ríkissjóðs um 47,5 ma. kr. Tillögurnar draga ekki úr fjárveitingum til mennta-, heilbrigðis- og öldrunarþjónustu, eða almannaöryggis- og samgöngumála.

Nái tillögur ráðsins fram að ganga verður ríkissjóður rekinn með 6,5 ma. kr. afgangi á næsta ári í stað 41 ma. kr halla. Þyngst vegur tillaga um að fallið verði frá viðbótarútgjöldum vegna aðgerða í tengslum við kjarasamninga. Tillagan sparar 14 ma. kr. á næsta ári verði hún tekin upp.

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, segir að með tillögunni leggi Viðskiptaráð til að viðbótarútgjöld sem eru tilkomin vegna aðkomu stjórnvalda að kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði verði dregin til baka þar sem íhlutun stjórnvalda í kjarasamningagerð kunni að skapa hættulegt fordæmi.

„Að mati ráðsins skýtur umfangsmikil aðkoma ríkissjóðs að kjarasamningunum skökku við. Útgjöldin fela í sér óeðlilega samþættingu stjórnvaldsaðgerða við frjálsa samningagerð. Það hefur færst í vöxt á undanförnum árum en vaxandi aðkoma stjórnvalda í kjarasamningagerð er óheillaþróun,“ segir Gunnar.

Hallarekstur vinni gegn markmiðum

Spurður hvort framkvæmd tillögunnar yrði til þess að samningsforsendur yrðu brostnar segir Gunnar að í ljósi þess að útgjöldin séu ófjármögnuð þá valdi þau auknum verðbólguþrýstingi og seinki lækkun vaxta sem vinni gegn markmiðum kjarasamninganna.

„Mesta kjarabótin fyrir heimilin er að ná niður vöxtum og verðbólgu. Hallarekstur ríkissjóðs vinnur gegn lækkun hvors tveggja,“ segir Gunnar.

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er afkoma ríkissjóðs neikvæð sem nemur 41 ma. kr. Árið 2025 verður því sjöunda árið í röð sem ríkissjóður er rekinn með halla. Ekki er gert ráð fyrir að ríkissjóður skili afgangi fyrr en árið 2028 þrátt fyrir mikinn tekjuvöxt og mikinn uppgang í hagkerfinu.

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs
Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs mbl.is

Gunnar segir að ef hagræðingaraðgerðirnar yrðu að veruleika myndi afkoma ríkissjóðs batna til muna.

„Hægja myndi á skuldasöfnum og vaxtabyrði ríkissjóðs lækka. Hvort tveggja gerir ríkissjóð betur í stakk búinn til að takast á við ófyrirséðar áskoranir,“ segir Gunnar.

Vilja fækka stofnunum um 23

Í umsögn Viðskiptaráðs segir að þegar komi að því að loka fjárlagagatinu standi val stjórnvalda milli skattahækkana og niðurskurðar.

„Viðskiptaráð telur að seinni kosturinn sé betri. Illa hefur gengið að vinda ofan af útgjaldaaukningu sem stofnað var til í heimsfaraldri og skattar hér á landi eru þegar háir í alþjóðlegum samanburði. Til viðbótar hefur verðbólga undanfarinna ára virkað sem viðbótarskattur sem rýrir verðgildi tekna og eigna Íslendinga. Svigrúm til skattahækkana er því takmarkað,“ segir í greiningunni.

Viðskiptaráð leggur auk þess til hækkun almennrar aðhaldskröfu. Þá vegi einnig þungt lægri fjárheimild og endurskoðað hlutverk Loftslags- og orkusjóðs, ásamt breyttu fyrirkomulagi veðmála, þak á endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar og endurskoðun á húsnæðisaðgerðum.

Þá leggur Viðskiptaráð til að ríkisstofnunum verði fækkað um 23 með sjö tillögum að sameiningum og niðurlagningu stofnana.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK