Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands, segir að ferðaþjónustan sé knúin áfram af áhuga ferðamanna og fyrirtækja en mikilvægt sé að tryggja að fjöldi ferðamanna verði ekki það mikill að hann valdi of miklum neikvæðum ytri áhrifum.
Ragnar hélt erindi á Ferðaþjónustudeginum sem haldinn var í Hörpu í gær. Hann segir í samtali við ViðskiptaMoggann að nauðsynlegt sé að stýra álagi á vissum ferðamannastöðum.
„Sérhver ferðamaður sem kemur hingað til landsins hefur í för með sér ytra óhagræði fyrir aðra ferðamenn og Íslendinga,“ segir Ragnar.
Hann nefnir að dæmi um álag geti verið ágangur á náttúru landsins og þrengsli á ferðamannastöðum sem kunna að valda því að upplifun hvers og eins ferðamanns verði lakari. Annað dæmi er aukið álag á innviði landsins, til dæmis vega- og heilbrigðiskerfið.
„Það er þess vegna sem við þurfum að stýra álaginu hvort heldur sem er á vinsælum ferðamannastöðum eða landinu í heild,“ segir Ragnar.
Hann bendir á að þó svo að ferðamenn færi landinu miklar tekjur og ferðaþjónustufyrirtækin skili hagnaði geti ytra óhagræði bitnað á landsmönnum og valdið því að nettó útkoman verði neikvæð.
„Við þurfum því að meta hver ákjósanlegur fjöldi ferðamanna sé og stýra álaginu þannig að ágangur á ferðamannastöðum verði ekki of mikill,“ segir Ragnar. Spurður um hvaða leiðir séu fýsilegastar segir Ragnar að markaðslausnir séu ákjósanlegastar. Þó sé þörf á frekari rannsóknum. „Við ættum að forðast að setja beinar magntakmarkanir því þær kunna að valda þjóðhagslegum kostnaði. Áherslan ætti ávallt að vera á markaðslausnir,“ segir Ragnar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.