Eik „berskjaldaðri“ en önnur fasteignafélög

Þann 20. september síðastliðinn lagði Langisjór fram yfirtökutilboð í Eik …
Þann 20. september síðastliðinn lagði Langisjór fram yfirtökutilboð í Eik fasteignafélag. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Eik er berskjaldaðri en önnur fasteignafélög gagnvart vannýtingu og töpuðum kröfum vegna samsetningar leigutaka. Þetta kemur fram í kynningu sem Arion banki tók saman í tengslum við yfirtökutilboð og birt er á síðu bankans.

Þann 20. september síðastliðinn lagði Langisjór fram yfirtökutilboð í Eik fasteignafélag. Tilboðið hljóðaði upp á 11,0 krónur á hlut í reiðufé. Gildistími tilboðsins er til 18. október næstkomandi. Í kynningu Langasjávar til hluthafa Eikar kemur fram að það sé mat þeirra að mikil vannýting og tapaðar kröfur vegna samsetningar leigutaka veiki Eik miðað við önnur fasteignafélög.

ViðskiptaMogginn fjallaði um það á dögunum að tilboðið væri að líkindum nokkuð lágt enda hefur komið á daginn að gengi bréfa Eikar eru nú töluvert yfir tilboðinu eða um 12,7 kr. á hlut miðað við lokagengi gærdagsins.

Í greinargerð stjórnar Eikar sem birt var á mánudagskvöld kemur fram að stjórnin telji tilboðsverð Langasjávar vera of lágt.

Telja gæfuskref að auka skuldsetningu til að bæta arðsemi eigin fjár

Meðal tillaga Langasjávar er að auka skuldsetningu Eikar til að auka arðsemi eigin fjár félagsins, án þess þó að stefna fjárhagslegum stöðugleika þess í hættu.

Rökstuðning Langasjávar fyrir frekari skuldsetningu félagsins er að finna í kynningu sem Arion banki sendi á hluthafa bankans og birt er á síðu Arion banka. Þar segir að Langisjór telji það vera gæfuskref fyrir félagið að auka skuldsetningu þess og þar með arðsemi eigin fjár. Rými sé til staðar fyrir frekari skuldsetningu til næstu ára samhliða straumlínulögun í rekstri. Þar með að ná fram sambærilegum skuldahlutföllum og samanburðarfélög.

Fram kom í ársskýrslu Eikar fyrir síðasta ár að langtímamarkmið félagsins væri 60% nettó veðhlutfall en í 6 mánaða uppgjöri félagsins í ár var hlutfallið 56,4%.

Í greinargerðinni kemur fram að stjórnin sé sammála Langasjó um að fýsilegt kunni að vera að skuldsetja félagið frekar að teknu tilliti til lánskjara og áhættu.

Í greinargerðinni kemur jafnframt fram að það geti komið tímabil þar sem munur á markaðsvirði og innra virði félagsins þróist í neikvæða átt. Þannig gæti komið upp sú staða að félagið meti það hagstæðara að fjárfesta í eigin bréfum fremur en að kaupa eignir.

Greinandi sem ViðskiptaMogginn ræddi við telur hins vegar minni skuldsetningu fýsilegri þar sem fjárfestar hafi lýst yfir almennum áhyggjum af mikilli skuldsetningu fasteignafélaganna. Líkt og fram kemur í ViðskiptaMogganum í dag eru skuldsetningarhlutföll íslenskra fasteignafélaga hærri en gengur og gerist á Norðurlöndunum.

Eik sé nú þegar arðgreiðslufélag

Eik sé nú þegar arðgreiðslufélag Önnur tillaga Langsasjávar er að „Eik yrði eftirleiðis arðgreiðslufélag sem greiði hluthöfum árlega arðgreiðslu er samsvari að jafnaði ekki lægra hlutfalli en 75% af handbæru fé frá rekstri næstliðins rekstrarárs.“

Í greinargerð stjórnar er aftur á móti bent á að Eik hafi um nokkurt skeið skilgreint sig sem arðgreiðslufélag og vísað er í arðgreiðslustefnu félagsins.

Á aðalfundi félagsins 2024 var samþykkt að breyta stefnunni þannig að árlega yrði greiddur út arður sem næmi a.m.k. 75% af handbæru fé frá rekstri ársins að frádreginni þeirri fjárhæð sem nýtt yrði í kaup á eigin bréfum fram að boðun næsta aðalfundar.

Fram kom að við mótun tillögu um arðgreiðslu skyldi litið til fjárhagsstöðu félagsins, fyrirætlana og stöðu efnahagsmála.

Greinin birtist fyrst í ViðskiptaMogganum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK