Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastjóri og einn stofnenda orkufyrirtækisins Alor, sem sérhæfir sig í framleiðslu og geymslu sólarorku eða birtuorku, sagði í erindi á ársfundi atvinnulífsins á dögunum að hægt væri að nota sólarsellur sem fljóta á vatni til að framleiða mikla orku.
Sem dæmi væri hægt að koma slíkum sellum fyrir á uppistöðulónum virkjana.
„Ég veit ekki hvort þið vitið það, en það er hægt að nota sólarsellur sem fljóta á vatni, t.d. á uppistöðulónum. Við eigum nú töluvert af þeim. Dæmi, við höfum reiknað út að ef við þekjum Hálslón við Kárahnjúkavirkjun með fljótandi sólarsellum, getum við framleitt meiri orku en Kárahnjúkavirkjun sjálf skilar í dag,“ sagði Linda Fanney á fundinum.
Uppsett afl Kárahnjúkavirkjunar er 690 MW.
Hún sagði einnig að tækifærin fyrir Ísland til þess að innleiða sólarorkulausnir væru mikil. Sólarorkutækninni hafi fleygt fram á ótrúlegum hraða og sé þegar nýtt í stórum stíl á stöðum með svipuð birtuskilyrði og Ísland, s.s. á Svalbarða og N-Noregi.
Linda Fanney varpaði fram þeirri spurningu á fundinum hvort sólarorkulausnir myndu leysa alla orkuþörf Íslands og svaraði því neitandi. „En þær munu verða mikilvægur hluti af fjölbreyttri orkublöndu. Þetta verður ekki ein lausn sem nær utan um alla þörfina, heldur samspil mismunandi orkugjafa,“ sagði Linda Fanney og bætti við að í framtíðinni sæi hún fyrir sér að vatnsafl, jarðvarmi, vindorka og sólarorka muni vinna saman. „Það gerast töfrar þegar tæknin styður hvor aðra.“