Athygli vekur að verslanirnar Hagkaup og Nettó bjóða viðskiptavinum sínum með áberandi hætti að greiða með Netgíró á sjálfsafgreiðslukössum. Þannig getur fólk til dæmis dreift matarinnkaupunum með auðveldum og aðgengilegum hætti.
Gunnar Egill Sigurðsson forstjóri Samkaupa, sem reka Nettó, segir að hlutfall Netgíró í versluninni hafi aukist jafnt og þétt á síðustu árum og sé nú um 2,5%. „Það er spurning hvort fjárhagur heimilanna í því umhverfi sem við erum í nú sé ekki að skýra þetta að hluta,“ veltir Gunnar fyrir sér.
Sigurður Reynaldsson framkvæmdastjóri Hagkaupa segir í skriflegu svari til ViðskiptaMoggans að litið sé á Netgíró sem þjónustu við ákveðinn hóp viðskiptavina sem kjósi að nota þessa tegund greiðslumáta. „Í stóru myndinni er þetta samt mjög lítill hluti,“ segir Sigurður.
Hann segir að kredit- og debetkort séu langstærsta greiðsluleiðin í versluninni. Peningar séu 5%.
Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna segir að í Danmörku séu lausnir eins og Netgíró, svokallaðar „versla núna borga seinna“, bannaðar sem fyrsta val. „Fyrsta val verður alltaf að vera staðgreiðsla eða kreditkortagreiðsla. Þú átt að þurfa að grafa þig niður til að nota svona greiðslur,“ segir Breki.
Þá segir hann að bannað sé í Danmörku að auglýsa greiðslulausnir í verslunum þar sem árleg hlutfallstala kostnaðar er meiri en 25%. „Árleg hlutfallstala kostnaðar Netgíró er 44%.“
Breki segir að Neytendasamtökin hafi ítrekað ýtt á Seðlabankann um að taka saman og birta upplýsingar um notkun neytendalána á Íslandi, án árangurs. „Í upplýsingum frá SÍ um skuldir heimilanna eru þessar greiðslur ekki þar á meðal. Fleiri og fleiri leita til okkar vegna vandræða tengdra neytendalánum.“