Ishiba liggur ekki á skoðunum sínum

Shigeru Ishiba á blaðamannafundi fyrr í mánuðinum. Þótt hann hafi …
Shigeru Ishiba á blaðamannafundi fyrr í mánuðinum. Þótt hann hafi verið gjarn á að stuða samflokksmenn sína er Ishiba í uppáhaldi hjá japönskum kjósendum. AFP/Yuichi Yamazaki

Umdæmisstjóri ViðskiptaMoggans í Asíu hefur svifið um á bleiku skýi síðan hann lenti í Tókýó í síðustu viku.

Það jafnast ekkert land á við Japan og engin borg jafnast á við Tókýó, en nýverið rann það upp fyrir mér hvað japanskt samfélag er líkt dýrabyggðinni í barnabókinni vinsælu Ys og þys í Erilborg eftir Richard Scarry. Lesendur muna örugglega eftir yndislegu teikningunum hans Scarry og hvernig allt er í röð og reglu í Erilborg: allir hafa sitt hlutverk, sinn einkennisbúning og sinn stað, allir lifa í sátt og samlyndi og hvergi má finna eina einustu örðu af rusli.

Betur er ekki hægt að lýsa Japan og hvergi kann ég betur við mig.

Ishiba endurnýjar umboðið

En auðvitað er Japan ekki eins og ævintýraheimur í barnabók. Japönsk menning er djúp, flókin og full af þversögnum, og eiga sérfræðingar fullt í fangi með að átta sig á japanska hagkerfinu, japönsku stjórnmálalífi og japönsku þjóðarsálinni.

Nú ber til tíðinda í Erilborg því uppstokkun varð í leiðtogahópi Frjálslynda lýðræðisflokksins (LDP) sem farið hefur með völdin í landinu nær óslitið í sjö áratugi, og þegar nýr forsætisráðherra tók við embætti um mánaðamótin var það hans fyrsta verk að boða til kosninga í neðri deild þingsins svo að flokkurinn mætti endurnýja umboð sitt frá kjósendum. (Ekki er hægt að rjúfa efri deildina, en þar halda þingmenn sætum sínum í 6 ár í senn og er kosið um helming þingsæta á þriggja ára fresti, næst sumarið 2025.)

Shigeru Ishiba er enginn töframaður – ekki frekar en stjórnmálamenn yfirleitt – en margt bendir til að hann sé réttur maður, á réttum stað, á réttum tíma.

Land hjarðhegðunar

Það á við um Japan, rétt eins og mörg önnur lönd í SA-Asíu, að hjarðhegðunin er svo rík í fólki að getur verið til trafala. Sagnfræðingurinn Mark Ravina hefur t.d. lýst því ágætlega í skrifum sínum hvernig hjarðhegðun – og skortur á gagnrýnisröddum – varð til þess að Japan asnaðist til að taka þátt í seinni heimsstyrjöldinni þó að ljóst væri að það yrði landinu feigðarflan. Hjarðhegðun átti líka stóran þátt í voðaverkum japanska hersins: menn misstu hreinlega tökin á sjálfum sér og öðrum og enginn þorði að stíga fram, gagnrýna og stíga á bremsuna og eiga á hættu að vera sakaður um að vera ekki nógu þjóðhollur.

Enda gerðist það í stríðsréttarhöldunum sem hófust í Tókýó 1946 að saksóknurunum reyndist erfitt að finna einhvern meginsökudólg. Engum japönskum Hitler var til að dreifa og engum japönskum nasistaflokki. Illvirkin fylgdu ekki heildaráætlun sem einhver hafði samið heldur spruttu illvirkin upp úr því að enginn bar í raun fulla ábyrgð á nokkrum hlut og allir gátu bent á einhvern annan.

Stríðið skildi eftir sig djúp sár á þjóðarsálinni en hafði samt þau jákvæðu áhrif að japanska þjóðin hefur verið alveg sérstaklega friðelskandi alla tíð síðan og leggur 9. grein japönsku stjórnarskrárinnar blátt bann við því að Japan haldi úti herafla og beiti hernaðarvaldi í milliríkjadeilum. Í reynd er Japan þó ekki herlaust land og ráðstafar árlega 3% af landsframleiðslu í að halda úti þungvopnuðu „landvarnaliði“ en aðeins fimm önnur lönd verja meiri fjármunum til varnarmála.

Tveimur kynslóðum eftir að sprengjurnar féllu á Hiroshima og Nagasaki hrís hinum almenna Japana hugur við þeirri tilhugsun að senda japanska hermenn á átakasvæði.

Í uppáhaldi hjá kjósendum

Ólíkt samlöndum sínum er Shigeru Ishiba ekki þekktur fyrir að fylgja hjörðinni. Þvert á móti hefur hann verið samflokksmönnum sínum óþægur ljár í þúfu allt síðan hann komst inn á þing árið 1986 – þá aðeins 29 ára gamall og yngsti þingmaðurinn í neðri deildinni. Í viðtölum hefur Ishiba sagt að það sé meginskylda stjórnmálamanns að liggja ekki á skoðunum sínum og hika aldrei við að segja hlutina eins og þeir eru, og var hann t.d. einn háværasti gagnrýnandi Shinzo Abe heitins. Ishiba sneri meira að segja baki við flokknum seint á 10. áratugnum og gekk um skeið til liðs við skammlíft klofningsframboð sem átti beinan þátt í að í kosningunum 1993 missti LDP forsætisráðherrastólinn í fyrsta sinn síðan 1955. Er ekki að furða að Ishiba hafi eignast marga óvini innan eigin flokks en fjórum sinnum áður hefur hann boðið sig fram til formanns og ekki haft erindi sem erfiði.

Forveri Ishiba, Fumio Kishida, náði að tolla í embætti í þrjú ár en hann tilkynnti í ágúst að hann myndi ekki gefa aftur kost á sér í flokksformannsembættið því hressa þyrfti upp á ímynd flokksins. Höfðu kannanir þá sýnt að kjósendur væru farnir að snúa baki við LDP í kjölfar þess að ljóstrað var upp um að flokksmeðlimir hefðu dregið sér mörg hundruð milljónir jena af framlögum sem ætluð voru flokknum og notað í eigin þágu.

Formannskosningin var æsispennandi en í fyrstu umferðinni hlaut Sanae Takaichi flest atkvæði, Ishiba lenti í öðru sæti og Shinjiro Koizumi – sonur Junichiro Koizumi fyrrverandi forsætisráðherra – hafnaði í því þriðja.

Hefði Takaichi unnið seinni umferðina hefði hún orðið fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Japans, en enginn skyldi samt kalla Takaichi blítt og hlýtt lótusblóm. Þvert á móti er hún af íhaldssömustu sort og hefur m.a. lýst sig andsnúna hjúskap samkynhneigðra og andvíga hugmyndum um að gefa konum kost á breyta ekki ættarnafni sínu þegar þær ganga í hjónaband, en lagabreyting í þá veru myndi hafa táknræna merkingu og væri skref í þá átt að kveðja lífseigar gamaldags hugmyndir um hlutverk og stöðu kynjanna í japönsku samfélagi.

Sigur Ishiba þykir til marks um að flokksbræður hans hafi viljað tefla fram sterku andliti en hann er vinsæll á meðal kjósenda þó að hann sé ekki vinamargur innan flokksins. Ishiba er mun frjálslyndari en Takaichi og ósammála henni þegar kemur að hjúskap samkynhneigðra og ættarnafnabreytingum. Merkilegt nokk hefur Ishiba líka talað opinskátt um að Japan þurfi að gera heiðarlegt uppgjör á seinni heimsstyrjöldinni og ólíkt hörðustu þjóðernissinnunum á þinginu hefur hann ekki heimsótt Yasukune-hofið, sem helgað er föllnum japönskum hermönnum, en hann segir slíkar heimsóknir valda óþarfa særindum hjá nágrannaþjóðunum Kína og Suður-Kóreu.

Í efnahagsmálum minnir Ishiba á framsóknarmann en hann er af landsbyggðinni og hefur beitt sér fyrir að stjórnvöld styðji sérstaklega við hnignandi dreifbýlið. Þá vill hann lækka lágmarkslaun og gera skattkerfið „sanngjarnara“ t.d. með því að hækka fjármagnstekjuskatt. Heilt á litið er þó ekki von á róttækri stefnubreytingu í efnahagsstefnu LDP og líklegt að Ishiba muni í megindráttum fylgja sömu línu og Kishida á undan honum.

Breytt viðhorf til hernaðarmála

Skoðanir Ishiba á varnarmálum kalla hins vegar á frekari skoðun. Ishiba er þekktur fyrir að vera mikill hernaðar-nörd, sem birtist m.a. í því að hann hefur það sem áhugamál að setja saman módel af herflugvélum og herskipum. (Hann er líka mikill áhugamaður um lestar og ramen-núðlur, og þegar leikfangasafn var opnað í smábæ sunnarlega í Japan árið 2018 lét Ishiba sig ekki muna um að mæta í grímubúningi á svæðið, klæddur eins og vondi karlinn í Dragon Ball-teiknimyndunum, að ósk skipuleggjenda viðburðarins.)

Ishiba er mjög í mun að styrkja hernaðarsamstarf Asíuríkja og langar að koma á ígildi NATO-bandalags í þessum heimshluta, með bæði Bandaríkin, Kanada, Filippseyjar, Suður-Kóreu og Indland innanbúðar. Sér hann fyrir sér að slíkt bandalag myndi styrkja stöðu vinaþjóðanna gagnvart Kína, Rússlandi og Norður-Kóreu, en bandarísk og indversk stjórnvöld hafa gefið það út að þau séu ekki áhugasöm um verkefnið.

Ishiba vill líka efla Japansher, með það fyrir augum að koma á betra jafnvægi í hernaðarsamvinnu Japans og Bandaríkjanna. Síðast en ekki síst telur Ishiba tímabært að breyta 9. grein stjórnarskrárinnar. Nýjustu kannanir benda til þess að japanskir kjósendur séu komnir á sömu skoðun – og af sömu ástæðu – og eru 63% landsmanna hlynnt því að breyta 9. greininni. Þar af gefa 93% þá skýringu að Japan standi ógn af Kína.

Erfitt ár fyrir hagkerfið

Engar líkur eru á að LDP tapi kosningunum þann 27. október næstkomandi en pólitísk framtíð Ishiba gæti ráðist af því hvort flokkurinn tapar mörgum sætum eða bætir við sig fylgi.

Greinendur segja að það hjálpi ekki flokknum að verðbólga er nokkuð há (á japanskan mælikvarða) og kaupmáttur á niðurleið. Þrátt fyrir 3% hækkun að nafnvirði voru laun í ágúst 0,6% lægri að raunvirði en fyrir ári og er verðbólgan 3,5% samkvæmt nýjustu mælingum. Þá fjölgaði gjaldþrotum fyrirtækja um 18,6% á sex mánaða tímabilinu til og með september, borið saman við sama tímabil í fyrra, og hafa gjaldþrot ekki verið tíðari síðan 2013 en tíunda hvert gjaldþrot er rakið til verðbólgunnar.

Það ríkir ekkert neyðarástand í Japan, og lífið gengur sinn vanagang í Erilborg, en fréttaskýrendur hafa réttilega bent á að nú muni Ishiba fá að kynnast því að það er eitt að gagnrýna aðra og segja hlutina umbúðalaust, og annað að koma hlutum í verk.

Í þessari grein hefur verið notast við enska ritháttinn á japönskum nöfnum, líkt og venjan er þegar fjallað er um Japan á alþjóðavettvangi, og ættarnafnið því látið koma á eftir eiginnafninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka