Einu sinni, einu sinni enn?

Óþarfa tafir hafa orðið á afgreiðslu mála er tengjast grænni …
Óþarfa tafir hafa orðið á afgreiðslu mála er tengjast grænni orku og orkuskiptum. mbl.is/​Hari

Þau sem fylgjast með fréttum þekkja vel fréttir af opinberum leyfisveitingum. Mál dragast, flækjast, er vísað fram og til baka milli stofnana og kærunefnda meðan tíminn flýgur allt of fljótt. Að endingu fæst niðurstaða stjórnvalds sem oftar en ekki er kærð. Það getur svo aftur leitt til þess að allt stjórnsýsluferlið hefjist einu sinni, einu sinni enn.

Hér skal ekki gert lítið úr mikilvægi vandaðrar stjórnsýslu vegna stórra samfélagslegra viðfangsefna s.s. leyfisveitinga í orku- og veitustarfsemi. Heldur ekki mikilvægi þess að almenningur eða aðrir geti fengið fram endurskoðun stjórnsýsluákvarðana. En fullyrða má að alltaf er hægt að gera betur.

Finnur Beck
Finnur Beck Ljósmynd/Aðsend

Orðin miklu meira en tóm

Vegna loftslagsvár hafa íslensk stjórnvöld, rétt eins og önnur ríki heims, sett íslensku samfélagi stíf markmið um minnkun á losun koltvísýrings og útfösun á notkun jarðefnaeldseytis. Þau eru miklu meira en orðin tóm.

Í margs konar löggjöf eru nú settar kröfur á fólk og fyrirtæki og varið miklum opinberum fjármunum til að stuðla að umskiptunum. Grænt Ísland til framtíðar er björt framtíðarsýn.

Af markmiðum stjórnvalda verða grundvallarbreytingar á mörgum sviðum samfélagsins og umfangsmikil verkefni í uppbyggingu og uppfærslu orku- og veituinnviða bíða okkar. Þau verkefni verða að vinnast hratt. Töluvert hraðar en hingað til hefur tíðkast. Þetta sýna m.a. vandaðar greiningar svo sem raforkuspá Landsnets 2024-2050. Hún leiðir í ljós líkur á viðvarandi orkuskorti til skemmri tíma fram til ársins 2029, og aftur til lengri tíma eftir 2040.

Skilvirk stjórnsýsla

Nágrannar okkar í Evrópu hafa þegar stigið róttæk skref í endurskoðun stjórnsýslu til að tryggja að ekki verði óþarfa tafir á afgreiðslu mála er tengjast grænni orku og orkuskiptum. Enda liggur á.

Dæmi eru um setningu hámarksfresta fyrir stofnanir til afgreiðslu mála og heimild til forgangsröðunar stjórnsýsluverkefna sem tengjast grænni orkuöflun. Hið sama er hægt að gera hér á landi án þess að nokkuð verði dregið úr kröfum til umsækjenda eða gæðum stjórnsýslu.

Allt á einum stað

Um árabil hefur Samorka knúið á um einföldun leyfisveitingaferla. Að komið verði upp rafrænni stjórnsýslugátt þar sem öll gögn máls eru á einum stað og samvinna stofnana tryggð og einfölduð.

Með sameiningu Umhverfis- og orkustofnunar í eina stofnun mun gefast dýrmætt tækifæri til að einfalda stjórnsýslumeðferð orku- og veituverkefna. Öflug sameinuð stofnun mun hafa ríkari faglega getu og starfsfólk til að vinna mál hraðar og leiða leyfisveitingarferli gagnvart öðrum stofnunum sem hlutverk hafa á þessu mikilvæga sviði.

Stjórnsýsla styðji við markmiðin

Ef stjórnvöld fylgja ekki eftir markmiðum sínum í loftslagsmálum með kröftugri stjórnsýslu er hætt við því að trú á þeim hverfi hægt og hljótt.

Miklar vonir eru því bundnar við þingmálaskrá vetrarins og boðað frumvarp umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis um skilvirkari leyfisveitingar á sviði umhverfis- og orkumála.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samorku.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK