Eru samvinnuverkefni lausn á innviðaskuldinni?

Magnús Árni Skúlason framkvæmdastjóri Reykjavik Economics.
Magnús Árni Skúlason framkvæmdastjóri Reykjavik Economics. mbl.is/Kristófer Liljar

Íslenskt samfélag hefur átt við vaxtarverki að stríða. Fólksfjölgun, fjölgun ferðamanna og uppbygging nýrra atvinnuvega hefur skapað álag á alla innviði landsins.

Innviðir eru ekki einungis brýr, vegir og jarðgöng. Aðrir innviðir eru oft ósýnilegir en þar mætti nefna stafræna innviði, veitukerfi o.fl.

Reykjavík Economics vann nýlega, í samvinnu við Íslandsbanka, skýrslu um innviði og samvinnuverkefni sem ekki hefur verið birt. Tilefni verkefnisins var lög um samvinnuverkefni og tillaga fyrrverandi innviðaráðherra um 909 milljarða uppbyggingu samgönguinnviða á fimmtán ára tímabili.

En hvað eru samvinnuverkefni? Samvinnuverkefnafjármögnun er fyrst og fremst nýtt til fjármagnsfrekra innviðafjárfestinga. Samvinnuverkefnaformið byggist á samstarfi opinberra aðila sem og einkaaðila en það hefur það að markmiði að aðilar komi í sameiningu að uppbyggingunni.

Samvinnuverkefni gera yfirleitt alltaf ráð fyrir gjaldtöku vegna notkunar. Við erum vön því að greiða gjald fyrir notkun á innviðum eins t.d. fráveitu.

Samvinnuverkefni geta hraðað framkvæmdum og stuðlað að efnahagslegum framförum og nýsköpun á ákveðnum svæðum. Hér má nefna að frumkvöðlar Hvalfjarðarganga hafa skapað mikil þjóðhagsleg verðmæti með styttingu hringvegarins ásamt því að stuðla að því að Akranes og höfuðborgarsvæðið er nú eitt atvinnusvæði. Því ber að horfa jákvæðum augum á slík verkefni og slíkt frumkvæði.

Einkaaðilar í samvinnu við hið opinbera geta oft náð mun betri árangri í innviðauppbyggingu en þar fer saman fjárhagslegur styrkur ríkissjóðs og hugmyndaauðgi og rekstrarþekking atvinnulífsins. Samvinnuverkefni, séu þau vel undirbúin og vel fjármögnuð, geta leitt til hagkvæmari uppbyggingar og rekstrar en ella. Fjárfestar sem koma að slíkum verkefnum þurfa að fá afgjald fyrir, annaðhvort með beinni eða óbeinni gjaldtöku. Stór samvinnuverkefni geta laðað að erlenda fjárfestingu og þá sérþekkingu sem henni fylgir.

Þau samgönguverkefni sem voru tilgreind í lögum nr. 80/2020 voru t.d. brú yfir Ölfusá, tvöföldun Hvalfjarðarganga, Sundabraut o.fl.

Annað dæmi um samvinnuverkefni er þegar einkaaðilinn kemur að uppbyggingu mannvirkis sem er nýtt beint af ríki eða sveitarfélagi. Hér má nefna uppbyggingu spítala, skóla og fangelsa.

Framtíðarhagsæld í húfi

Innviðaskuld Íslands er há og það þarf að fara í miklar fjárfestingar á næstu misserum og árum. Ef ekki verður nægilega fjárfest í innviðum hér á landi dregur það úr hagsæld og gætti leitt til verri lífskjara til framtíðar. Ísland er enn í dag í fremstu röð ríkja hvað varðar lífskjör. Til að haldast í þeim hópi þarf að huga að þessum málum og forgangsraða m.t.t. arðsemi framkvæmda.

Aldurssamsetning þjóðarinnar er hagfelld í dag til að fara í innviðauppbyggingu en verður það líklega ekki eftir 15 ár gangi mannfjöldaspár eftir. Öldrun þjóðarinnar mun kalla á aðra forgangsröðun í opinberum fjármálum.

Fjölmörg dæmi eru um að vel hafi tekist til við samvinnuverkefni bæði hér og í nágrannalöndunum. Svíar nýttu sér þessa leið við lagningu Arlanda-fluglestarinnar og við uppbyggingu Karolinska Solna-sjúkrahússins. Hálogalandsbrautin er annað dæmi frá Noregi. Við getum því lært af reynslu annarra.

Mikilvægt er samt að huga að ruðningsáhrifum stórframkvæmda, vanda vel til verka og undirbúa verkefnin af kostgæfni, greina alla áhættuþætti og svo mætti lengi telja. Samvinnuverkefnaformið á ekki alltaf við og höfuðmáli skiptir að útfærsla og framkvæmd þeirra verkefna sem farið verður í nýti kosti formsins.

Endanlega er það stjórnmálamanna að ákveða hvaða leiðir verða farnar til að leysa innviðaskuldina. Er pólitískur vilji til að vanda til verka í þessum efnum?

Höfundur er framkvæmdastjóri Reykjavík Economics.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK