Hagfræðideild Landsbankans spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,27% á milli mánaða nú í október og að ársverðbólga hjaðni úr 5,4% í 5,1%.
Í tilkynningu frá bankanum segir að húsnæðisliður vísitölunnar muni hafa mest áhrif til hækkunar á milli mánaða, en þar sem gert er ráð fyrir að húsnæðisliðurinn hækki töluvert minna en fyrir ári muni það hafa áhrif til hjöðnunar ársverðbólgu.
Bent er á að matarkarfan hafi lækkað um 0,5% á milli mánaða í ágúst, í fyrsta sinn í þrjú ár, og lækkað svo aftur um 0,2% í september.
„Hér má ætla að áhrif aukinnar samkeppni á matvörumarkaði hafi haft áhrif,“ segir í tilkynningu bankans.
„Verðathugun okkar fyrir októbermánuð bendir samt til þess að matarkarfan muni hækka lítillega nú, langmest vegna verðhækkana á kjöti. Við spáum því að matarkarfan hækki um 0,2% á milli mánaða.“
Þá er því spáð að reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar kostnaðinn af því að eiga húsnæði, hækki um 0,7% á milli mánaða (0,14% áhrif) í október.
„Frá því í júní, þegar Hagstofan tók upp nýja aðferð við mat á reiknaðri húsaleigu, hafa mælingar verið stöðugri og mánaðarbreytingar verið á þrengra bili. Í október í fyrra hækkaði reiknuð húsaleiga um rúmlega 2%. Nú spáum við töluvert minni hækkun og að þar með dragi úr framlagi reiknaðrar húsaleigu til ársverðbólgu.“
„Verð á flugfargjöldum til útlanda sveiflast verulega í samanburði við marga aðra liði vísitölunnar,“ segir í tilkynningunni.
„Í októbermánuði eru þó yfirleitt ekki afgerandi mánaðarsveiflur og við spáum nú 1,9% hækkun á flugfargjöldum á milli mánaða. Gangi spáin eftir verður nokkurn veginn jafn dýrt að fljúga til útlanda í október í ár og í fyrra. Þá spáum við því að verð á bensíni og dísilolíu lækki um tæplega 0,1% á milli mánaða.“