Gríðarlega margir beðið eftir þessari opnun

Opnað var á umsóknir fyrir lánin í síðustu viku.
Opnað var á umsóknir fyrir lánin í síðustu viku. Samsett mynd/Aðsend/mbl.is/Sigurður Bogi

Á bilinu 30 til 40 samþykkt kauptilboð eru farin eða eru á leið í umsóknarferli vegna hlutdeildarlána hjá fasteignasölunni Ás í Hafnarfirði.

Opnað var á nýjan leik fyrir umsóknir um lánin hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS, í síðustu viku. Lokað hafði verið fyrir umsóknirnar frá því í maí.

„Þetta er eitthvað sem gríðarlega margir hafa beðið eftir. Þetta er seint til komið og ég hefði viljað sjá þessa opnun koma miklu fyrr,“ segir Aron Freyr Eiríksson, einn af eigendum hjá Ás.

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Hamranesi.
Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Hamranesi. mbl.is/Sigurður Bogi

Fram kom í tilkynningu HMS að til úthlutunar fyrir umsóknartímabilið núna, frá 4. til 21. október, verði 800 milljónir króna. Dugi fjármagnið ekki til verður dregið af handahófi úr umsóknum þeirra sem uppfylla skilyrði lánanna.

Hlutdeildarlán eru veitt til kaupa á nýjum hagkvæmum íbúðum sem hafa verið samþykktar af HMS. Í undantekningartilvikum eru eldri íbúðir utan höfuðborgarsvæðisins samþykktar ef þær hafa verið gerðar upp sem nýjar.

Útsýni yfir Reykjavík frá Höfðatorgi.
Útsýni yfir Reykjavík frá Höfðatorgi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Býst við umframeftirspurn 

Aron Freyr segir eftirspurnina hafa verið mikla eftir að opnað var á nýjan leik fyrir hlutdeildarlánin. Margar af umsóknunum um lánin hafi verið búnar að bíða ansi lengi, eða síðan í vor. Hann telur að umframeftirspurn verði í sjóðinn sem úthlutað verður úr á umsóknartímabilinu.

Miðað við að meðalsöluverð íbúðanna hjá Ás, sem eru farnar eða á leið í umsóknarferli vegna hlutdeildarlánanna, er 65 milljónir króna á hverja íbúð þá sækjast kaupendur, bara hjá þeirri fasteignasölu, eftir um 450 til 500 milljónum króna í hlutdeildarlán. Sú upphæð nær því hátt upp í heildarúthlutunina upp á 800 milljónir króna. 

Aron Freyr Eiríksson.
Aron Freyr Eiríksson.

Vill endurskoða hámarksverð

„Það var því gott að sjá að í fjárlögum næsta árs sé gert ráð fyrir enn stærri sjóð í hlutdeildarlán og stofnframlög heldur en í ár þar sem eftirspurnin eftir hlutdeildarlánunum er mjög mikil og hefur farið vaxandi,“ segir Aron Freyr, sem telur að endurskoða þurfi hámarksverð íbúða sem geta fallið undir hlutdeildarlánin á næstu misserum. Ágætt framboð íbúða hafi til að mynda verið í Hamranesi, sem falli undir skilyrðin, en fasteignaverð hafi þó hækkað.

„Hækkun á hámarksverði gæti stóraukið framboð þeirra íbúða sem falla undir hlutdeildarlánin en sem dæmi voru að koma á sölu í síðustu viku 40 nýjar íbúðir í hverfinu en aðeins fjórar þeirra falla undir hlutdeildarlánin vegna reglna um hámarksverð,“ greinir hann frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka