Vinnumarkaðurinn kólnar

Fjölgun erlendra ríkisborgara á Íslandi nemur um 25 þúsund manns …
Fjölgun erlendra ríkisborgara á Íslandi nemur um 25 þúsund manns frá árslokum 2021. mbl.is/Árni Sæberg

Vísbendingum hefur fjölgað upp á síðkastið um að vinnumarkaðurinn sé að kólna hægt og rólega. Þetta segir Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir svör stærri fyrirtækja í spurningakönnun Gallup sýna að þeim fyrirtækjum sem búa við skort á starfsfólki hafi fækkað jafnt og þétt undanfarna ársfjórðunga.

„Sömu sögu segja tölur um fjölda lausa starfa og svo auðvitað þróun atvinnuleysis. Atvinnuleysið hefur verið heldur meira það sem af er ári en á sama tíma í fyrra,“ segir Jón Bjarki.

Atvinnuleysi toppi á næsta ári

Skráð atvinnuleysi í september var 3,3% og jókst úr 3,2% frá því í ágúst. Í september 2023 var atvinnuleysið hins vegar 3,0%. Að meðaltali voru 6.785 atvinnulausir í september, 3.810 karlar og 2.975 konur. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Vinnumálastofnun sem birtar voru í gær.

Jón Bjarki segir að það séu ekki horfur á að atvinnuleysi verði verulegt vandamál á komandi misserum.

Íslenskur vinnumarkaður sé býsna sveigjanlegur og ef ekki verði þungir skellir á borð við fjármálakreppuna fyrir 15 árum eða heimsfaraldurinn muni kólnandi vinnumarkaður frekar endurspeglast í minni aðflutningi fólks vegna vinnu, minna launaskriði, minni atvinnuþátttöku vegna náms, að fólk ljúki starfsævinni fyrr og fullnýti fæðingarorlof, og þar fram eftir götunum.

„Við gerum ráð fyrir að atvinnuleysið fari tímabundið eitthvað yfir 4% á komandi ári, og þá frekar yfir vetrarmánuðina þegar atvinnuleysi er jafnan hvað mest. Með vaxandi umsvifum þegar frá líður ætti atvinnuleysið svo að þokast aftur nær núverandi gildum nema við fáum á okkur högg í efnahagsþróuninni,” segir Jón Bjarki.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka. Ljósmynd/Aðsend

Hröð fólksfjölgun hafi reynt á innviði

Í Þjóðhagsspá Íslandsbanka, sem gefin var út í september, kemur fram að bankinn spái því að atvinnuleysi verði 3,7% í ár, 4,1% árið 2025 og minnki í 3,8% árið 2026. Arion greining spáir að atvinnuleysi verði 3,7% í ár og nái hámarki í 4,5% á því næsta. Hagspá Landsbankans verður gefin út á þriðjudag.

Hröð fólksfjölgun síðustu árin hefur að stórum hluta verið drifin áfram af skorti á innlendu vinnuafli, ekki síst í mannaflsfrekum greinum eins og mannvirkjagerð, ferðaþjónustu og ýmsum þjónustu- og umönnunargreinum.

Jón Bjarki segir að nettó aðflutningur til landsins hafi því verið mikill á sama tíma og fæddir umfram látna hafi skýrt minni hluta af þeirri miklu fólksfjölgun sem hér hefur orðið. „Þessi hraða fólksfjölgun hefur vissulega reynt á ýmsa innviði, ekki síst á húsnæðismarkað, enda nemur fjölgun erlendra ríkisborgara á Íslandi 25 þúsund manns frá árslokum 2021,“ segir Jón Bjarki en bætir við að það sem vegi þó þyngra sé að þessir nýju íbúar eiga stóran þátt í því hversu fljótt og vel hagkerfið tók við sér eftir faraldur.

Nýjustu tölur er varða fólksfjölgun benda til þess að hægt hafi á aðflutningi til landsins að undanförnu. Jón Bjarki segir í þessu sambandi að aðflutningur fólks undanfarin ár hafi verið mikill í sögulegum samanburði.

„Við gerum ráð fyrir að talsvert hægi á slíkum aðflutningi þegar vinnumarkaðurinn nær betra jafnvægi. Það er þó ekki útséð um að tímabundið gæti atvinnuleysið aukist allnokkuð í hópi nýbúa,“ segir Jón Bjarki að lokum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK