Norðurál og Faxaflóahafnir hafa endurnýjað samstarfssamning vegna starfsemi Norðuráls á hafnarsvæðinu á Grundartanga.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Norðuráli en þar segir að Norðurál og Faxaflóahafnir hafi lengi átt í góðu samstarfi, eða allt frá stofnun Norðuráls árið 1998.
„Endurnýjaður samningur tekur mið af breyttum þörfum vegna nýrrar framleiðslulínu í álveri Norðuráls. Ný framleiðslulína mun auka verðmæti framleiðslunnar með því að færa virðisaukandi framleiðslu, sem hingað til hefur farið fram erlendis, til Íslands. Með því að nota íslenska orku verður kolefnisspor framleiðslunnar mun minna en ef hún færi fram erlendis,“ segir í tilkynningunni.
Fram kemur að með þróun hafnarinnviða og hafnarsvæða séu Faxaflóahafnir drifkraftur viðskipta- og atvinnulífs á Faxaflóasvæðinu og veiti skilvirka þjónustu við fyrirtæki og skip.
„Samningurinn undirstrikar breytt umhverfi beggja aðila frá því upphaflegur samningur var gerður. Það er von okkar að hann styrki enn frekar sterkt viðskiptasamband Norðuráls og Faxaflóahafna,“ er haft eftir Gunnari Guðlaugssyni, forstjóra Norðuráls.