Hagsæld er ekki sjálfsagður hlutur

Vatns- og rafmagnsskortur er á Kúbu. Kona skammtar vatn á …
Vatns- og rafmagnsskortur er á Kúbu. Kona skammtar vatn á flöskur en flytja þurfti vatnið með hestakerru. AFP/Yamil Lage

Dýravinum á Kúbu er verulegur vandi á höndum. Undanfarin misseri hefur orðið mikill kippur í þeim fjölda gæludýra sem skilin hafa verið eftir af eigendum sínum sem flúið hafa land í leit að betra lífi annars staðar. Talið er að frá árinu 2020 hafi um milljón manns – eða tíundi hver Kúbverji – sagt skilið við þetta draumaríki sósíalista og enn þann dag í dag eiga margir ekki völ á öðru en að halda af stað á heimagerðum fleka og lifa ekki endilega ferðalagið af.

Það eru ekki margir gæludýraeigendur á Kúbu enda hafa fáir efni á að eiga hund eða kött en samt er gæludýrahald nógu útbreitt til að það skapist vandamál þegar tíundi hver landsmaður stingur af. Nógu dýrt er það fyrir þetta aðframkomna fólk að koma sjálfu sér til annars lands, að ekki bætist við allur kostnaðurinn og flækjurnar sem fylgja því að taka með sér gæludýr.

Til að auka á vandann hafa dýravinir rekið sig á að jafnvel ef þeim tekst að finna yfirgefnu dýrunum ný heimili er allt eins líklegt að þeir sem í dag geta skotið skjólshúsi yfir dýr í neyð þurfi á morgun að stökkva á tækifærið ef þeim býðst leið til að flýja þá eymd og skort sem miðstýring hagkerfisins hefur kallað yfir Kúbu.

Kúba hefur ekki verið mikið í fréttum að undanförnu, enda heimsbyggðin haft um margt annað að hugsa. Hér um árið leit út fyrir að kommúnistarnir ætluðu að losa aðeins um tökin á hagkerfinu en síðan þá hefur ástandið bara versnað og í september ákváðu stjórnvöld að best væri að bregðast við versnandi efnahagsástandi með nýjum og strangari reglum, skertu athafna- og viðskiptafrelsi, og enn meira eftirliti. Allur gangur er á hvort vatn kemur úr krönunum, skammta þarf raforkuna, skortur er á matvælum, og er meira að segja skortur á sykri á þessari eyju þar sem varla er hægt að reka skóflu ofan í jörðina án þess að upp spretti bústinn sykurreyr.

Má núna skipta eyjarskeggjum í tvo hópa: annars vegar eru þeir sem eiga ættingja erlendis sem senda smávegis pening sem nota má til að draga fram lífið. Svo eru þeir sem fá enga hjálp að utan og geta hér um bil enga björg sér veitt.

Ég hef sagt það áður og segi það enn, að það var ekki lítið afrek hjá Castro að gera Kúbu að einu fátækasta landi heims, því þessi paradísareyja fékk í vöggugjöf allt það sem þarf til að blómstra og dafna: fiskimiðin eru gjöful, ræktarlandið fyrsta flokks, veðurfarið gæti ekki verið betra, dýrmætir málmar ofan í jörðinni og með réttu ætti þar allt að vera fullt af sólþyrstum og eyðsluglöðum ferðamönnum. Kúbverjar eiga meira að segja olíulindir og telja sumir að heildarmagn olíu í kúbverskri lögsögu jafnist á við u.þ.b. fimmtunginn af olíuforða Noregs.

Er heldur ekki eins og Kúba sé á hjara veraldar. Þvert á móti er landið í túnfæti NAFTA og væri leikandi létt að koma vörum á markað í Mexíkó eða Bandaríkjunum ef Kúba hefði bara eitthvað til að selja þeim.

Vestrænir sósíalistar kenna viðskiptabanni Bandaríkjanna um hörmungarnar en gleyma því að Kúbu er frjálst að eiga viðskipti við öll önnur lönd í heiminum. Hefur það verið reiknað út að aðgerðir Bandaríkjanna valdi Kúbu efnahagslegu tjóni sem jafngildi verðinu á einu pari af strigaskóm á mann árlega, en allt tjón umfram það má skrifa á hagstjórn kommúnistanna.

Rætur arðránsstjórnarfars

Það væri freistandi að segja að raunir Kúbverja væru sósíalískri hagstjórn að kenna, og láta þar við sitja. En slíkt svar dregur upp of einfaldaða mynd af hvað það er sem veldur því að sum lönd skuli vera rík en önnur fátæk.

Á mánudag var tilkynnt að í ár færu Nóbelsverðlaunin í hagfræði til þriggja fræðimanna sem hafa fært sannfærandi rök fyrir því að hagsæld þjóða ráðist fyrst og fremst af því hvort þær búi yfir pólitískum og samfélagslegum innviðum sem annaðhvort valda því að velsældin takmarkast við þröngan hóp fólks sem nær að sjúga til sín verðmætin í hagkerfinu, eða láta velsældina dreifast tiltölulega vel um samfélagið svo að almennir borgarar fái notið ávaxta erfiðis síns.

Í pistli í júlí fjallaði ég um þá Daron Acemoglu og James A. Robinson og fræga bók þeirra Why Nations Fail, en þriðji verðlaunahafinn er Simon Johnson, samstarfsmaður þeirra til margra ára. Rekja má sess þremenninganna í fræðasamfélaginu til frægrar vísindagreinar sem þeir birtu árið 2001 þar sem kenningin um takmarkandi (e. extractive) og dreifandi (e. inclusive) samfélagsstofnanir var fyrst sett fram.

Eins og með allar áhugaverðar kenningar hefur gagnrýnendum Acemoglus, Robinsons og Johnsons tekist að finna nokkra veika fleti á niðurstöðum þeirra, en heilt á litið er kenningin sannfærandi.

Ótal þættir geta beint þjóðum á rétta eða ranga braut, og takmarkandi – eða öllu heldur arðrænandi – kerfi geta verið furðulífseig jafnvel þegar það er augljóst að öllum myndi vegna betur ef tekið væri upp skárra stjórnarfar. Nefna þeir Acemoglu og Robinson mörg dæmi um það sem þeir kalla „járnlögmál fámennisstjórnar“, þar sem vel meinandi byltingarleiðtogar ruddu í burtu gömlu valdhöfunum sem höfðu samlanda sína undir hælnum og fylltu eigin vasa á kostnað almennings, en allt fór svo aftur í sama farið og jafnvel að nýju þjóðarleiðtogarnir reyndust verri en þeir gömlu. Það er nefnilega hægt að skipta út fólkinu á toppnum en það er allt annað verkefni að uppræta formlegar og óformlegar stofnanir samfélagsins.

Acemoglu og Robinson nefna sem dæmi reynslu Kína, Víetnams, Egyptalands, Simbabve og svo auðvitað Kúbu sem var ekkert draumaland í valdatíð harðstjórans Fulgencios Batista. Lýðræði er meira að segja engin trygging fyrir sanngjörnu hagsældarsamfélagi, og skemmst að minnast þess þegar íbúar Venesúela kusu Chávez til valda, fullkomlega meðvitaðir um að hann væri bara illskásti kosturinn en gæti kannski staðið uppi í hárinu á þeim spilltu sérhagsmunaöflum sem höfðu í marga mannsaldra haft landið á sínu valdi.

Virðast breytingar til batnaðar annaðhvort þurfa að gerast yfir mjög langan tíma, eða þegar meiri háttar skakkaföll verða til þess að nægilega mikið rót kemst á hlutina til að alvörubreytingar geti átt sér stað. Hafa Nóbelsverðlaunahafarnir þrír nefnt í því sambandi dýrlegu byltinguna á Bretlandseyjum á 17. öldinni, frönsku byltinguna, og Meiji-endurreisnina í Japan.

Annar áhugaverður flötur á kenningum þremenninganna er á þá leið að stjórnarfar fyrrum nýlenduríkja í dag megi rekja til þess hvort það var heppilegt við stofnun þeirra að níðast á heimamönnum eða nauðsynlegt að halda þeim góðum og samstarfsfúsum. Í Bandaríkjunum og Ástralíu var t.d. ekki raunhæft að drottna yfir innfæddum og aðfluttum og láta þá strita á plantekrum eða ofan í námum, og fyrir vikið mótaðist þar mun skárra stjórnarfar en í Rómönsku-Ameríku og Afríku þar sem aðkomumennirnir gátu djöflast á fólki með ofbeldi og skepnuskap.

Hverjir munu njóta góðs af gervigreindinni?

Þeir Acemoglu, Johnson og Robinson virðast almennt á þeirri skoðun að dreifandi samfélagsstofnanir og efnahagslegt og pólitískt frelsi haldist í hendur. Er þó ekki þar með sagt að þeir séu gallharðir frjálshyggjumenn út í eitt og sést það skýrt á bók Acemoglus og Johnsons sem kom út í fyrra, Power and Progress.

Þar hrekja þeir þá útbreiddu skoðun að það gerist nánast sjálfkrafa að samfélagið allt njóti góðs af tækniframförum og aukinni verðmætasköpun. Niðurstaðan er á svipuðum nótum og í Why Nations Fail: mikill vill meira og efnahagslegt og pólitískt vald á það til að safnast á fáar hendur. Er hætt við því að þeir sem eiga framleiðslutækin reyni að einoka ábatann og eina ráðið, að mati Acemoglus og Johnsons, að valdefla hinn almenna borgara t.d. í gegnum stéttarfélögin.

Þykja niðurstöður Power and Progress sérstaklega áhugaverðar í ljósi þeirra breytinga sem gervigreindarbyltingin ætti að hafa í för með sér. Rétt eins og það var ekki sjálfgefið að almenningur, frekar en elítan, nyti góðs af landbúnaðarbyltingunni og iðnbyltingunni benda Acemoglu og Johnson á að þeim sem munu umbylta atvinnulífinu með gervigreind sé ekki endilega efst í huga að tæknin geri hinum venjulega launþega meira gagn en ógagn. Segja þeir að það skipti höfuðmáli hvort tæknin verði þróuð með því hugarfari að frelsi, geta og gerandahæfni einstaklingsins sé útgangspunktur frekar en aukastærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka