Umfangsmiklar breytingar á rekstri Play

Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play.
Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play. mbl.is/Árni Sæberg

Uppfærð afkomuáætlun flugfélagsins Play gefur vísbendingar um að rekstrarafkoma verði lakari en á síðasta ári, ólíkt því sem spáð hefur verið um. Flugfélagið hefur brugðist við með því að boða viðamiklar breytingar á rekstri félagsins frá og með miðju næsta ári, sem felur meðal annars í sér að félagið sækir um annað flugrekstrarleyfi á Möltu. 

Breytingarnar munu ekki hafa áhrif á farþega sem eiga flug með félaginu. Eitthvað verður um uppsagnir en þær verða ekki í stórum stíl.

Félagið segir fjárhagsstöðu þess áfram vera sterka og að ekki sé talin þörf á auknu fjármagni til rekstrarins á næstunni. Uppfærð afkomuáætlun gefur þó vísbendingar um að rekstrarafkoma félagsins verði verri en á síðasta ári, ólíkt því sem spáð hafði verið fyrir um. Áhrif framboðsaukningar á flugi yfir Atlantshafið hafði þannig meiri áhrif á stöðu félagsins en ætlað var.

Einar Örn Ólafsson forstjóri Play kveðst bjartsýnn á að þær breytingar sem nú eru boðaðar komi rekstri félags á réttan kjöl. Hér neðar má lesa ítarlegt viðtal við hann vegna breytinganna, en rétt er að gera þeim skil áður.

Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play.
Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play. Bernhard Kristinn

Einbeita sér að sólarlöndum

Félagið hyggst draga verulega úr umsvifum í Atlantshafsflugi, það er milli Norður-Evrópu og Ameríku, en afkoma tengd því flugi hefur valdið vonbrigðum á sama tíma og annar hluti starfsemi félagsins, það er flug milli Íslands og sólarlanda Suður-Evrópu, hefur reynst arðbær frá upphafi.

Sökum þessa mun áfangastöðum félagsins í Ameríku og Norður-Evrópu fækka talsvert frá og með miðju næsta ári. Á hinn bóginn verður áætlun félagsins til Suður-Evrópu enn aukin.

Sótt um annað flugrekstrarleyfi á Möltu

Samhliða þeim breytingum sem þegar hafa verið raktar, hyggst Play nýta hluta flugflota sinn með öðrum hætti en áður. Flugfloti Play telur í dag tíu vélar og verða sex til sjö þeirra staðsettar á Íslandi eftir breytingarnar en þrjár til fjórar erlendis. Vélarnar sem staðsettar verða erlendis verða meðal annars nýttar til þess að fljúga fyrir aðra aðila utan Íslands, en fyrsta verkefni félagsins af þeim toga hefst strax í næsta mánuði.

Um er að ræða rúmlega fjögurra mánaða verkefni fyrir bandaríska flugfélagið GlobalX í Miami sem hefst í byrjun nóvember og lýkur um miðjan mars á næsta ári.

Vegna þessara breytinga hefur Play hafið umsóknarferli um annað flugrekstrarleyfi á Möltu.

Félagið gerir ráð fyrir að því ferli ljúki næsta vor og nýja flugrekstrarleyfið verði þá í höfn.
Stefnt er að því að fyrsta vél félagsins sem færð verður yfir á maltneska flugrekstrarleyfið verði staðsett á Tenerife og muni þaðan meðal annars fljúga til Keflavíkur og Akureyrar.

Play hefur tryggt sér fjóra milljarða króna í aukið hlutafé.
Play hefur tryggt sér fjóra milljarða króna í aukið hlutafé. Stefán Einar Stefánsson

Aukið framboð og langdrægari þotur hafi áhrif

„Við höfum frá upphafi séð að sá þáttur starfsemi okkar sem gengið hefur best er þessi sem á ensku útleggst sem „point-to-point“, það eru flug sem ekki eru hluti af tengibankanum yfir Atlantshafið, heldur einkum flug milli Íslands og Suður-Evrópu og eyjanna fyrir utan Afríku sem tilheyra Spáni og Portúgal,“ segir Einar Örn í samtali við ViðskiptaMoggann.

„Sá hluti starfseminnar sem snýr að því að flytja fólk milli Ameríku og Norður-Evrópu með Ísland sem tengibanka hefur aldrei gengið alveg eins vel. Rekstur þessa hluta starfseminnar hafði þó farið batnandi ár frá ári þangað til í ár þegar að hann tók aftur að versna. Eftir vandlega skoðun á rekstrinum sjáum við framtíð félagsins ekki liggja í því að leggja áherslu á flug yfir Atlantshafið, heldur verði það töluvert mikill minnihluti starfsemi okkar fram á við.“

Einar kveður þróun mála skýrast af verulega auknu framboð flugfélaga á Atlantshafinu en einnig aukinni drægni svokallaðra mjóþota sem jafnframt breyti leiknum.

„Við erum að horfa fram á að þessar svokölluðu mjóþotur, það eru þotur með einum gangi, eru að verða sífellt langdrægari og hagkvæmari. Það er að gera það að verkum að ýmsar borgir austan hafs og vestan eru að tengjast núna með beinum flugum sem gerðu það ekki áður. Okkur sýnist í það heila að þróunin sé frekar í þá áttina,“ segir hann.

Í ljósi þess sem þú nefndir um drægni flugvéla, er þessi sýn um Ísland sem tengimiðstöð Norður-Atlantshafsins að verða úrelt með tækniframförum?

„Ég ætla nú ekki að gerast boðberi einhverra mikilla spádóma um dauða Keflavíkurflugvallar sem tengimiðstöðvar, en ég held að það sé ekki útilokað að þetta þurfi að breytast eitthvað, þ.e.a.s að menn þurfi að fara sífellt lengra, á aðra staði, en menn hafa verið að fara á. Til dæmis minni borgir í ameríku sem hafa ekki fengið beinar tengingar eða hugsanlega lengra austur eða vestur.“

Tíu vélar of mikið fyrir sólarlegginn

Eins og áður hefur verið minnst á hyggst Play einbeita sér að flugi milli Íslands og sólarlanda. Einar segir eftirspurn eftir slíkum ferðum þó ekki næga til þess að 10 véla floti flugfélagsins nýtist allur á þeim vettvangi.

„Þessi flug hafa verið einhvers staðar nálægt þriðjungi af starfsemi okkar. Við munum auka það nokkuð, auk þess sem við munum eitthvað vera með tengibankann yfir Atlantshafið í gangi. En breytingarnar kalla á að við finnum einhverjum af flugvélum okkar ný hlutverk og það munum við gera utan Íslands, enda sjáum við ekki fram á að hafa verkefni fyrir þessar vélar við að fljúga til og frá Íslandi eða í gegnum Ísland að svo komnu máli.“

Óhagkvæmt að nýta íslenska áhöfn í verkefnum ytra

Vegna þessarar nýlundu á notkun vélanna á erlendri grundu hafi verið ákveðið að sækja um annað flugrekstrarleyfi á Möltu.

„Það blasir við að þetta verður ekki gert með neinum skynsamlegum hætti án þess að vera með annað flugrekstrarleyfi. Við höfum þegar sótt um flugrekstrarleyfi á Möltu og reiknum með að fá því úthlutað í vor og í kjölfarið munum við starfrækja þessar vélar sem staðsettar verða utan landsteinanna á því flugrekstrarleyfi.“

Óhagkvæmt væri að nýta íslenskar áhafnir í slík verkefni.

„Samkvæmt samningum yrðum við að nota áhafnir okkar hér á Íslandi í slík verkefni á íslensku flugrekstrarleyfi og það er auðvitað mjög óhagkvæmt. Aðallega vegna þess að við þyrftum þá að flytja fólk út, halda þeim uppi þar, borga þeim dagpeninga, hótel og svo framvegis. Það væri einfaldlega ekki skynsamleg ráðstöfun og því munum við nota staðbundnar áhafnir þar sem vélarnar eru staðsettar. Annað borgar sig ekki.“

Play flýgur daglega til Amsterdam í vetur.
Play flýgur daglega til Amsterdam í vetur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilviljun að breytingin verði í aðdraganda lausra kjarasamninga

Hefur ákvörðun um að sækja um maltneskt flugrekstrarleyfi eitthvað með það að gera að kjarasamningar Play við flugliða losna í byrjun næsta árs?

„Nei, Það er algjör tilviljun að þetta sé að gerast á svipuðum tíma og það styttist í að við þurfum að endurnýja kjarasamninga. Sex til sjö af okkar flugvélum munu byrja og enda daginn á Íslandi og laun þeirra áhafnarmeðlima sem vinna á þeim vélum munu taka mið af íslenskum kjarasamningum.“

Tímasetningin skapar eflaust hugrenningartengsl í þessa átt meðal fólks. Hafið þið áhyggjur af því að ASÍ rísi upp á afturlappirnar, líkt og sambandið hefur áður gert gagnvart ykkur?

„Við getum auðvitað ekki stýrt því hvað fólki finnst eða hvað það segir, en við óskum þess gjarnan að gagnrýnin byggi þá á rökstuddum fullyrðingum en sé ekki, eins og okkur hefur nú stundum þótt, úr lausu lofti gripnar.“

Erlend áhöfn á vél staðsettri í Tenerife

Vélin sem staðsett verður á Tenerife verður mönnuð áhöfn staðsettri þar og rekin á erlenda flugrekstrarleyfinu, en Einar segir ótvíræða kosti felast í því að staðsetja eina vél þar.

„Það er ekkert gríðarlegt kostnaðarhagræði af því fyrirkomulagi að öðru leyti en að það væri óðs manns æði að vera með Íslendinga á hótelum og dagpeningum á Spáni að fljúga þeirri vél. Einn af kostunum við að hafa vélina á Tenerife er að þá getum við flogið henni til Akureyrar og Egilsstaða, sem væri ekki hagkvæmt að gera ef hún væri staðsett í Keflavík. En hún mun trúlega fara til fleiri staða í Evrópu.“

Hann sér ekki að margir aðrir staðir en Tenerife kæmu til greina með þessu fyrirkomulagi.

„Svona fyrirkomulag gengur aðeins þaðan sem ferðir eru nægilega tíðar til og frá Íslandi og eins og er gildir það aðeins um Tenerife.“

Hverju skilar það Play að sinna verkefnum ytra sem eru ótengd Íslandi?

„Þegar við fórum að þreifa fyrir okkur kom í ljós að það er mikil eftirspurn eftir þeim vélum sem ekki nýtast á Íslandi. Ástæðan fyrir því að við teljum okkur geta fengið ágæta afkomu út úr því að reka þessar vélar fyrir aðra flugrekendur er sú að þær eru svo hagkvæmar. Þær eru á miklu lægri leigu á þeim langtímasamningum sem við gerðum á sínum tíma heldur en fást á sambærilegum flugvélum í dag. Það munar tugum prósenta.“

Einhverjar uppsagnir en ekki í stórum stíl

Hvað þýða allar þessar breytingar fyrir starfsfólk Play?

„Fækkun véla í rekstri hér leiðir óhjákvæmilega til þess að næsta sumar og það þarnæsta verður fjöldi áhafnarmeðlima um 70% af því sem þeir voru síðasta sumar, sem þýðir að það verður nokkur fækkun hjá okkur.“

Verður sú fækkun tekin í gegnum færri ráðningar fyrir sumarið eða gerist jafnframt þörf á uppsögnum?

„Þetta verður að mestu tekið í gegnum náttúrulega starfsmannaveltu sem er mikil á haustin þegar unga fólkið okkar snýr aftur í skóla. Við eigum ekki von á því að það verði uppsagnir í stórum stíl.“

En á skrifstofunni og í framkvæmdastjórn?

Sjálfsagt verður samfara þessu, á næstu 12-18 mánuðum, einhver fækkun á skrifstofunni. Þegar kemur að flugrekstri, óháð því hvort hann felur í sér þrjár vélar eða 20, þá þarf alltaf að vera ákveðinn strúktúr til staðar.

Engin áhrif á farþega sem eiga miða

Munu þessar breytingar á líkani Play hafa áhrif á farþega sem eiga bókað flug á næsta ári?

„Þar sem þetta tekur ekki gildi fyrr en um mitt næsta ár mun þetta hafa lítil sem engin áhrif á farþega sem eiga flug með Play. Það stendur ekki til að gera neinar breytingar á þeim flugum sem eru í sölu vegna þessara breytinga.“

Sannfærður um að Play sé komið á beinu brautina

Ertu bjartsýnn á að lukkuhjólið fari að snúast ykkur í vil samhliða þessum breytingum?

„Eins og viðskiptalíkanið lítur út á töflunni þá er mjög bjart fram undan. Eftir síðustu þrjú ár erum við reynslunni ríkari og sagan hefur kennt okkur hvað gengur vel og hverjar áskoranirnar eru. Nú ætlum við að keyra á það sem við vitum að gengur vel og draga úr því sem gengur ekki eins vel. Ég er alveg sannfærður um að Play sé komið á beinu brautina.“

Hvenær mega fjárfestar vænta þess að sjá hagnað byggðan á þessu nýja viðskiptalíkani?

„Því miður er þessi bransi þannig að það gerist allt dálítið hægt, vegna þess að fólk kaupir flug marga mánuði fram í tímann. Við getum þannig ekki slökkt ein ljós og kveikt önnur samstundis, sem gerir að verkum að þetta gerist í skrefum. Við erum að setja vél eftir nokkrar vikur til Bandaríkjanna í svona verkefni og reiknum með að þetta gerist í skrefum fram á mitt næsta ár og þá verði þetta nýja líkan komið að fullu í gagnið. Frá og með þeim tíma reiknum við með því að félagið verði rekið með hagnaði.

Félagið er með afkomufund á fimmtudaginn í næstu viku og þar hyggjumst við kynna nýja viðskiptalíkanið og sýna þá betur hvað við erum að hugsa og hvernig við sjáum reksturinn í kjölfar þessara breytinga,“ segir Einar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK