330 milljónir í netnám í tónlist

Margrét segist oft hafa hitt fólk sem er harmþrungið yfir …
Margrét segist oft hafa hitt fólk sem er harmþrungið yfir að hafa ekki getað lært á hljóðfæri á yngri árum. Eyþór Árnason

Fjárfestingarsjóðurinn Frumtak Ventures hefur ásamt hópi fjárfesta fjárfest fyrir samtals 330 milljónir króna í íslenska nýsköpunarfyrirtækinu Moombix. Því er ætlað að umbylta tónlistarkennslu á netinu og tengja saman nemendur, kennara og tónlistarfólk um allan heim.

Stofnandi félagsins, Margrét Júlíana Sigurðardóttir, segir í samtali við Morgunblaðið að hlutaféð sé ætlað í frekari vöxt á erlendum mörkuðum.

Margrét líkir Moombix við leigufyrirtækið AirBnB og leigubílafyrirtækið Uber. Rétt eins og bílstjórar geta skráð sig inn á Uber og byrjað að aka með farþega geti kennarar skráð sig inn í Moombix og tekið á móti nemendum í lifandi kennslustundum á netinu. Margrét segir að við þróun kerfisins séu fullorðnir nemendur sem ekki hafi tíma til að binda sig við hefðbundna tónlistarkennslu í tónlistarskólum hafðir í huga.

Eins konar lífsstíll

Í gegnum Moombix geta nemendur stundað sitt nám í stofunni heima þegar þeim hentar. „Hugmyndin er að tónlistariðkun sé eins konar lífsstíll rétt eins og að fara í jógatíma, læra á gönguskíði, spila golf eða læra tungumál á netinu,“ útskýrir Margrét.

Fyrirtækið starfar bæði á Íslandi og í Bretlandi en innreiðin í Bretland hófst síðastliðið vor. Tvö hundruð kennarar bjóða nú upp á kennslu, þar á meðal tónlistarmenn sem tilnefndir hafa verið til Grammy-verðlauna og starfað með hljómsveitum eins og Massive Attack og söngkonunni Kylie Minogue.

„Við viljum skapa vettvang sem gerir tónlistarnám aðgengilegt fyrir alla, óháð staðsetningu eða reynslu. Moombix er fyrir alla þá sem vilja dýpka þekkingu sína eða taka fyrstu skrefin í að læra á hljóðfæri, semja sína eigin tónlist, eða reyna fyrir sér í raftónlist. Hefðbundin tónlistarkennsla er fyrst og fremst ætluð fyrir börn á skólaaldri og aðgengi fullorðinna að tónlistarnámi hefur hingað til verið mjög takmarkað. Við viljum koma til móts við þennan hóp, auka aðgengi að tónlistarkennslu og byggja kennsluna meira á forsendum nemendanna,“ segir Margrét.

Moombix er fyrir alla þá sem vilja dýpka þekkingu sína …
Moombix er fyrir alla þá sem vilja dýpka þekkingu sína eða taka fyrstu skrefin í að læra á hljóðfæri, semja sína eigin tónlist, eða reyna fyrir sér í raftónlist.

Hún segir að tónlistarkennarar njóti þess sveigjanleika sem Moombix bjóði upp á, þar sem þeir stjórni sínum eigin kennslustundum, tekjum og kennslutíma. „Þetta er tækifæri fyrir þá sem vilja deila ástríðu sinni fyrir tónlist og byggja upp eigin nemendahóp.“

Prófaði tíu viðskiptaáætlanir

Margrét, sem stofnaði Mussila og er sjálf menntaður tónlistarmaður, fór að huga að nýjum viðskiptatækifærum eftir að hún seldi hlut sinn í fyrirtækinu árið 2020. „Ég prófaði örugglega tíu viðskiptaáætlanir áður en þessi varð ofan á. Ég sá að hraðinn og tæknin á netinu var orðin það góð að hægt var að hefja svona þjónustu. Allir með góða nettengingu og grunnþekkingu á tölvu geta auðveldlega notað Moombix.“

Mussila var ætlað börnum en nú eru það fullorðnir sem fá mestu athyglina. „Ég hef svo oft hitt fyrir fólk sem er hreinlega harmþrungið yfir að hafa ekki getað lært á hljóðfæri á yngri árum – af alls konar ástæðum. Tónlistarnám er dýrt og krefst atlætis og úthalds. Fólk lendir hjá alls konar tónlistarkennurum og fær ekkert endilega að læra tónlistina sem það langaði að læra eða spila á hljóðfærið sem það vildi læra á. Tónlist skiptir fólk máli og ég held að það séu margir þarna úti sem eiga rykfallna rafmagnsgítara úti í horni eða langar til að tileinka sér nýjustu tónlistarforritin, gerast plötusnúðar eða búa til stef fyrir TikTok.“

Hljóðfæri eru ólík, af mörgum stærðum og gerðum. Margrét segir aðspurð að samt sé snjallsíminn allt sem þarf til að nota Moombix. „Fólk getur stillt símanum upp með tilliti til hljóðfærisins. Þannig væri betra að stíga eitt skref aftur á bak ef maður ætlar að vera með hávaða, blása í lúður eða sekkjapípu,“ segir Margrét og brosir og segir að Moombix verði til taks að aðstoða fólk yfir netið gerist þess þörf.

Nokkur svipuð forrit eru til á markaðnum en það sem gerir Moombix einstakt í sinni röð að sögn Margrétar er kennslurýmið sem fylgir forritinu. Á Moombix eru bæði bókunar- og greiðsluþjónusta en þar að auki þetta kennslurými sem er sérsniðið að tónlistarkennslu og gerir tímana og námið allt skilvirkara. „Því hefur verið mjög vel tekið af kennurum.“

Moombix verður einnig hægt að nota innan veggja tónlistarskólanna. „Við höfum átt í viðræðum við tónlistarskóla um að nota kerfið í bland við hefðbundna kennslu.“

Möguleikarnir eru endalausir eins og Margrét nefnir og hvetur hún alla sem vilja leiðbeina öðru fólki í tónlist að skrá sig á Moombix. „Það eru margir mjög áhugasamir um að deila sinni sérþekkingu og reynslu í tónlist og við tökum fagnandi öllum sem geta kennt á hljóðfæri eða eru með sérþekkingu í tónlistarstjórn, framleiðslu og útgáfu eða geta hjálpað fólki í sviðsframkomu, tónfræði eða hverju sem viðkemur því að stunda eða starfa við tónlist.“

Markaðssetning hófst í vor í Bretlandi. „Við gerðum litla herferð og auglýstum eftir kennurum. Það skilaði 200 leiðbeinendum, breskum og íslenskum. Næst á dagskrá er svo að kynna Íslendingum Moombix.“

Kasta út netunum

Margrét segir að vegferð fyrirtækisins hafi byrjað í Bretlandi vegna þess hve tónlistarmarkaðurinn þar er gríðarlega öflugur. „Svo munum við halda áfram að kasta út netum en við horfum mikið til tölulegra upplýsinga þegar kemur að ákvörðunartöku.“

Margrét segist aðspurð hafa mikla trú á að Moombix geti aflað mikilla tekna í fyllingu tímans. „Þegar horft er til svipaðra forrita eru allar markaðsspár mjög lofandi fyrir vöru af þessu tagi. Þetta er markaður í gríðarlega örum vexti.“

Um nafnið Moombix segir Margrét að lokum að innblásturinn að því komi frá útvarpsþætti sem hún hlustaði gjarnan á þegar hún var búsett í Vínarborg í Austurríki og hét La Boom Deluxe. „Þátturinn, tónlistin og senan í kringum hann var hálfgerð vin í þessu samfélagi sem var svolítið fast í fortíðinni. Nafnið á þættinum sat alltaf í mér og þessi stemning. Það er mikil tónlist í nafninu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK